Skilyrði Rússa óásættanleg

Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, segir skilyrði sem Rússar setja í friðarviðræðum vegna borgarastríðsins í Úkraínu óásættanleg. 

Þetta kom fram í máli forsetans er hann ræddi við fréttamenn í hléi á maraþonfundi sem nú stendur yfir.

Leiðtogar Úkraínu, Rússlands, Þýskalands og Frakklands komu saman í Mínsk í Hvíta-Rússlandi síðdegis í gær til að reyna að binda enda á blóðsúthellingarnar í austurhéruðum Úkraínu. Petró Porósjenkó, forseti Úkraínu, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heilsuðust með handabandi á fundinum en þetta var í fyrsta skipti sem þeir hittast frá því í október sl. Fundurinn stendur enn yfir. 

Þúsundir hafa látist í austurhluta Úkraínu síðan átökin hófust þar fyrir tíu mánuðum síðan.

„Því miður eru engar góðar fréttir enn,“ sagði Porosénkó þegar hann kom út af fundinum. Hann segir að fram hafi komið skilyrði af hálfu Rússa sem hann geti ekki sætt sig við. En viðræðum verði haldið áfram. „Það er alltaf von,“ bætti hann við. 14 tímar eru síðan fundurinn hófst í höfuðborg Hvíta-Rússlands. 

Embættismenn frá löndunum sögðu að leiðtogafundurinn gæti ráðið úrslitum um hvort hægt yrði að koma á friði eða hvort átökin hörðnuðu enn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Leiðtogar vestrænna ríkja lýstu fundinum sem einu af síðustu tækifærunum til að afstýra enn meiri blóðsúthellingum. Að minnsta kosti fimmtíu manns biðu bana í árásum í átakasvæðunum síðasta sólarhringinn fyrir fundinn.

Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, varaði við því að herlög kynnu að vera sett í landinu ef viðræðurnar í Mínsk bæru ekki árangur. Herlög myndu auðvelda stjórnarhernum í Úkraínu að herða árásir sínar á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna en gætu einnig haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag landsins. Gert er ráð fyrir því að Porosénkó fari til Brussel í dag til að ræða Úkraínumálið við leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hringdi í Vladímír Pútín Rússlandsforseta fyrir fundinn í Mínsk og hvatti hann til að beita sér fyrir því að aðskilnaðarsinnarnir semdu við stjórn Úkraínu. Obama kvaðst hafa áhyggjur af áframhaldandi stuðningi Rússa við aðskilnaðarsinnana og sagði að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Rússa ef friðarviðræðurnar í Mínsk færu út um þúfur. Bandaríkjastjórn hefur sakað rússnesk stjórnvöld um að hafa sent hermenn til Úkraínu og vopnað aðskilnaðarsinnana.

Obama hefur varað við því að Bandaríkjastjórn kunni að sjá her Úkraínu fyrir vopnum ef friðarviðræðurnar bera ekki árangur. Breska stjórnin hefur einnig léð máls á því að vopna Úkraínuher. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að engin „friðkaupastefna“ kæmi til greina í Úkraínudeilunni og virtist skírskota til friðkaupastefnu breskra stjórnvalda gagnvart Adolf Hitler áður en síðari heimsstyrjöldin blossaði upp.

Leiðtogar margra aðildarríkja Evrópusambandsins eru þó andvígir því að Úkraínuher verði séð fyrir vopnum þar sem þeir óttast að það geti orðið til þess að löndin dragist inn í stríð gegn Rússlandi.

Markmiðið með fundinum í Mínsk var að tryggja vopnahléssamkomulag sem myndi byggjast á samningi sem Úkraínustjórn og leiðtogar aðskilnaðarsinnanna undirrituðu í Mínsk í september. Meðal annars var rætt um að þungavopn yrðu flutt af átakasvæðunum og komið yrði upp hlutlausum beltum þar sem barist hefur verið síðustu vikur, að því er fram kom í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Vladimír Pútín, Angela Merkel, Francois Hollande og Petro Porosénkó voru …
Vladimír Pútín, Angela Merkel, Francois Hollande og Petro Porosénkó voru öll mætt til Minsk í gær EPA
Vladimír Pútín forseti Rússlands
Vladimír Pútín forseti Rússlands AFP
Petro Porosénkó, forseti Úkraínu
Petro Porosénkó, forseti Úkraínu AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert