„Þeim er sama þó þeim sé nauðgað“

Hún trúir því vart að menntaður maður sleppi slíkri fáfræði …
Hún trúir því vart að menntaður maður sleppi slíkri fáfræði úr munni sér.

Viðbrögð þáttastjórnandans gætu vart verið betri í sjónvarpsviðtalinu hér að neðan ef eitthvað er að marka textann. Rætt er við sagnfræðinginn Saleh Al Saadoon sem trúir því að það sé hættulegt fyrir sádí-arabískar konur að keyra bíl þar sem slíkt muni leiða til þess að þeim verði nauðgað. 

Þegar þáttastjórnandinn bendir á að konur í Ameríku, Evrópu og í Arabaheiminum keyri bíla grípur Al Saadoon fram í og segir að þeim konum sé sama þó þeim sé nauðgað. Sömuleiðis segir hann að dömurnar eigi að vera þakklátar fyrir að vera ekið út um allt þar sem eiginmenn, synir og bræður komi fram við þær eins og drottningar.

Í myndbandinu sjást viðbrögð annarra gesta örsnöggt en þeir virðast vart trúa því að einhver sé einu sinni að halda þessari vitleysu fram. 

Undir lok myndbandsins getur þáttastjórnandinn svo ekki haldið aftur af sér lengur og byrjar að flissa þegar Al Saadoon leggur fram hina augljósu lausn á ökubanninu. Þáttastjórnandinn spyr hvort Al Saadoon hafi ekki áhyggjur af því að mennirnir sem keyra konurnar geti einnig nauðgað þeim. Hann jánkar en segist hafa hugsað fyrir því.

„Lausnin er að fá erlenda kvenkyns bílstjóra til að keyra eiginkonur okkar,“ segir Al Saadoon alvarlegur í bragði. Þáttastjórnandinn getur ekki stillt sig lengur yfir fáránleika þessa samtals og ber hendurnar hlæjandi að andliti sínu. 

Ef hlátur er besta vopnið gegn fáfræði þá stendur þessi kona sig vel. Veruleikafirring Al Saadoon er hinsvegar ekki aðeins hlægileg heldur líka ógnvænleg því hann vísar í raunveruleika sem enginn ætti að þurfa búa við en milljónir kvenna þurfa að þola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert