Átök brutust út í Austur-Úkraínu í dag en þar hefst vopnahlé eftir rúman sólarhring. Bandarísk yfirvöld halda því fram að Rússar séu enn að sjá aðskilnaðarsinnum fyrir vopnum. Á meðan vöruðu yfirvöld í Kænugarði við því að sprengjuárásum á almenna borgara hefði fjölgað síðan samið var um vopnahlé.
Að minnsta kosti 27 almennir borgarar og hermenn hafa látist í Austur-Úkraínu síðan samið var um vopnahlé.
„Því miður hafa árásir Rússlands aukist síðan skrifað var undir í Minsk. Við erum enn viss um að samningurinn sé í mikilli hættu,“ sagði forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, í dag á fundi með forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban.
„Eftir það sem var ákveðið í Minsk eru þetta ekki aðeins árásir gegn almennum borgurum heldur einnig árásir gegn samkomulaginu,“ bætti hann við og vísaði í sprengjuárás í bænum Artemivsk þar sem þrír létust, þar á meðal sjö ára barn.
Bandarísk yfirvöld telja að Rússar sjái aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu enn fyrir vopnum. Talskona utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Jen Psaki, sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu fengið upplýsingar þess efnis að vopn hefðu verið flutt inn til Úkraínu frá Rússlandi síðustu daga. Eiga fleiri vopn að vera á leiðinni.
„Það er augljóslega ekki í anda samningsins sem var samþykktur í vikunni,“ sagði Psaki.
„Við erum sannfærð um að þetta er rússneskur her, ekki eitthvað aðskilið,“ sagði hún og bætti við að rússneskir hermenn við landamærin væru að undirbúa stóra sendingu af birgðum til aðskilnaðarsinnanna.