Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa náð yfirráðum yfir íraska bænum Al-Baghdadi sem er í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá bandarískri herstöð. Bandaríkjaher sagði frá þessu í dag.
Liðsmenn samtakanna réðust á herstöðina Al-Asad, en þeir gerðu m.a. sjálfsvígssprengjuárásir. Allir árásarmennirnir féllu.
„Við metum það þannig að þeir séu með yfirráð í Al-Baghdadi,“ sagði talsmaður Pentagon, varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, John Kirby, á blaðamannafundi í dag. Hann sagði ennfremur að bærinn hefði verið undir yfirráðum hryðjuverkamannanna síðustu daga.
Bærinn er í Anbar-héraði, sem er aðeins nokkrum kílómetrum frá Al-Asad-herstöðinni, en þar eru um 300 bandarískir hermenn staðsettir. Þeir hafa það verkefni að þjálfa íraska hermenn.
Um 20 til 25 liðsmenn Ríkis íslams, sem voru klæddir í herbúninga Írakshers, gerðu árás á stöðina í dag. Þeir voru allir felldir eða létu lífið í sjálfsvígsárásum. Sagði Kirby í dag að bandarískir hermenn hefðu aldrei tekið þátt í átökunum.
Bætti hann við að fall Al-Baghdadis í hendur hryðjuverkamönnunum væri ekki áfall fyrir aðgerðir gegn samtökunum.
„Þetta er aðeins einn bær. Þetta er ekki allt Anbar. Þetta er ekki allt Írak,“ sagði Kirby.