Danska lögreglan hefur staðfest að einn maður, karlmaður á fertugsaldri, er látinn eftir skotárásina í leikhúsinu Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn fyrr í dag. Þrír lögreglumenn eru einnig særðir eftir að hafa orðið fyrir skoti, en þeir eru ekki taldir í lífshættu.
Lögreglan leitar nú tveggja árásarmanna sem ganga lausir. Þeir eru sagðir hafa flúið í svartri VW Polo bifreið. Vitni segja að árásarmennirnir hafi verið svartklæddir og talað dönsku.
Talið er að skotárásin hafi sérstaklega beinst að sænska teiknaranum Lars Vilks. Jørgen Petersen lögreglustjóri hefur staðfest í samtali við Ekstra Bladet að um morðtilraun hafi verið að ræða. Vilks hefur áður teiknað umdeildar skopmyndir af Múhameð og hefur þurft að sæta líflátshótunum vegna þeirra. Hann komst lífs af, faldi sig í geymslu þar til danskir öryggislögreglumenn komu honum út bakdyramegin.
Sendiherra Frakklands í Danmörku var einnig á meðal ráðstefnugesta. Hann tilkynnti á Twitter-síðu sinni að hann hefði sloppið ómeiddur.
Árásarmennirnir stormuðu inn í leikhúsið, vopnaðir sjálfvirkum rifflum, og hófu skothríð. Vopnaðir lögreglumenn svöruðu skothríðinni að bragði og var fjölmörgum, allt að fjörutíu, skotum hleypt af. Árásarmennirnir voru grímuklæddir og héldu áfram að skjóta þegar þeir flúðu af vettvangi.
Danskir fjölmiðlar greina frá því að árásarmennirnir hafi jafnframt komist í gegnum málmleitartæki áður en þeir hófu skothríðina. Þeir komust hins vegar ekki að Lars Vilk áður en þeir flúðu af vettvangi. Fjöldi vopnaðra lögreglumanna var við leikhúsið í dag.
Uppfært kl. 16:50:
Danska lögreglan hefur staðfest að einn maður, karlmaður á fertugsaldri, sé látinn eftir skotárásina. Hann var óbreyttur borgari, að sögn danskra fjölmiðla.
Uppfært kl. 17:12:
Lögreglumennirnir þrír sem urðu fyrir skoti eru slasaðir, en ekki taldir í lífshættu. Sá látni er almennur borgari, fjörutíu ára að aldri.
Bíllinn sem árásarmennirnir flúðu á, dökkur Volkswagen Polo, fannst við Borgervænget 25 á Austurbrú, stutt frá leikhúsinu. Hann var mannlaus.
Uppfært kl. 17:25: Helle Merete Brix, einn skipuleggjenda ráðstefnunnar, segir að Lars Vilks hafi falið sig í kælugeymslu í eldhúsi leikhússins. Hún sagði við TV2 að hún og Vilks hefðu falið sig þar saman og haldið í hendurnar á hvoru öðru. Hann hafi verið mjög rólegur.
Fréttin verður uppfærð.
Frétt mbl.is: Skotárás í Kaupmannahöfn