Maðurinn sem grunaður er um að hafa borið ábyrgð á tveimur skotárásum í Kaupmannahöfn í gær var 22 ára og fæddur og uppalinn í Danmörku. Maðurinn hét Omar Abdel Hamid El-Hussein, en eins og komið hefur fram var hann skotinn til bana af lögreglu eftir árásirnar í gær.
Lögregla þekkti til mannsins vegna ofbeldishneigðar hans og tengingu hans við glæpagengi samkvæmt frétt TV2 í Danmörku. Samkvæmt frétt Ekstra-Bladet losnaði maðurinn úr fangelsi aðeins tveimur vikum fyrir árásina, en hann hafði setið inni fyrir líkamsárás.
Tveir létust í árásunum og segir danska lögreglan að árásarmaðurinn hafi mögulega verið undir áhrifum frá hryðjuverkunum sem voru framin í París. Öryggislögregla landsins þekkti til mannsins sem er talinn hafa verið einn á ferð.
Mikil sorg ríkir í Danmörku eftir árásirnar, sem voru annars vegar gerðar á menningarhús í Kaupmannahöfn og hins vegar á bænahús gyðinga í borginni. Í árásinni á menningarhúsið lést danski kvikmyndagerðarmaðurinn Finn Nørgaard, 55 ára, en talið er að skotmarkið hafi verið sænski teiknarinn Lars Vilks sem teiknaði á sínum tíma skopmyndir af Múhameð spámanni. Í menningarhúsinu fór í dag fram ráðstefna um list, tjáningarfrelsi og guðlast.
Í árásinni á bænahúsið lést Dan Uzan, 37 ára gamall gyðingur. Uzan var vel liðinn og þekktur í samfélagi gyðinga í Kaupmannahöfn. Hann var á vakt í bænahúsinu í gærkvöldi en þar var verið að ferma (bar mitzva) unga stúlku. „Manni líður minna öruggum, sérstaklega í gyðingasamfélaginu,“ sagði 65 ára gamli Liebecke í samtali við AFP fréttastofuna.
„Þetta er hræðilegt. Þetta er árás á hina frjálsu veröld,“ sagði hinn 84 ára gamli Joergen Johanssen annar viðmælandi fréttastofunnar.
Mikill viðbúnaður ríkir hjá dönsku lögreglunni eftir árásirnar.