Um sama árásarmann að ræða

Lögreglan skaut árásarmanninn við Nørrebro lestarstöðina í nótt
Lögreglan skaut árásarmanninn við Nørrebro lestarstöðina í nótt EPA

Lögreglan í Kaupmannahöfn telur að maðurinn sem skaut tvo til bana og særði nokkra í tveimur árásum í borginni í gær sé maðurinn sem var skotinn til bana af lögreglunni í nótt.

Á blaðamannafundi klukkan átta að staðartíma, klukkan 7 að íslenskum tíma í morgun, kom fram í máli Torbens Mølgaard Jensens, lögreglustjóra í Kaupmannahöfn, að sami maðurinn hafi framið báðar árásirnar og að það sé maðurinn sem var skotinn til bana.

Fram kom á blaðamannafundinum að gögn úr eftirlitsmyndavélum og upplýsingar frá leigubílstjóra hafi leitt lögreglu áfram við leitina að manninum. Þannig hafi fengist upplýsingar um hver hann var. 

Forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, er létt yfir fréttum um að umsáturástandinu sé lokið í borginni og hún hrósar lögreglu hvernig staðið var að aðgerðum hennar í gær og í nótt. Hún hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 10:30 (klukkan 9:30 að íslenskum tíma) ásamt dómsmálaráðherra Danmerkur,  Mette Frederiksen.

Á blaðamannafundinum í morgun kom fram að í eftirlitsmyndavélum sjáist maðurinn forða sér frá kaffihúsinu Krudttønden á Østerbro þar sem hann skaut einn til bana og særði þrjá. Eins sést þegar hann tekur bifreið konu traustataki og ekur bifreiðinni eftir Borgervænget bak við Kildevældsgarðinn  á Østerbro.

Meðal ræðumanna á fundinum á kaffihúsinu var sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks, sem meðal annars teiknaði skopmyndir af Múhameð spámanni árið 2007. Á fundinum átti að ræða íslam og tjáningarfrelsið. Sá sem lést í árásinni var 55 ára karlmaður en ungur gyðingur lést í árásinni á bænahúsið seint í gærkvöldi. Bænahúsið er aðal-bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn og stendur við Krystalgötu, í um 5 km fjarlægð frá fyrri árásarstaðnum. 

Talið er nánast fullvíst að fyrri árásinni hafi verið beint gegn Vilks en hann teiknaði meðal annars skopmynd af spámanninum í líki hunds. 

Leiðtogar fjölmargra ríkja hafa fordæmt árásirnar sem minna mjög á árásirnar í París í síðasta mánuði.

Ekki hafa verið birtar upplýsingar um hver árásarmaðurinn er en lögreglan í Kaupmannahöfn boðar áframhaldandi viðbúnað í borginni. Sænska lögreglan hefur einnig aukið öryggiseftirlit í landinu í kjölfar árásanna í Kaupmannahöfn.

Í gær birti lögreglan mynd af árásarmanninum þar sem hann flúði af vettvangi fyrri árásarinnar. Allir þeir sem særðust í árásunum tveimur, fimm manns, eru lögreglumenn.

AFP fréttastofan hefur eftir sendiherra Frakklands, François Zimeray, sem var einn gesta á fundinum á kaffihúsinu að árásarmaðurinn hafi skotið á allt sem fyrir varð. Hann hélt að hann hefði heyrt 50 skothvelli en samkvæmt lögreglu voru þeir nær 200 talsins og göt eftir byssukúlur út um allt. 

Einn þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig um árásirnar í Kaupmannahöfn er Patrick Pelloux, dálkahöfundur hjá Carlie Hebdo með þessum orðum: Við erum öll dönsk í kvöld.

Danska ríkissjónvarpið

Berlingske

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu og sjúkraliði í Kaupmannahöfn
Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu og sjúkraliði í Kaupmannahöfn EPA
Danska lögreglan að störfum í morgun
Danska lögreglan að störfum í morgun EPA
Danska lögreglan
Danska lögreglan AFP
Jørgen Skov fulltrúi lögreglunnar á blaðamannafundinum í morgun,
Jørgen Skov fulltrúi lögreglunnar á blaðamannafundinum í morgun, EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert