Vopnahléið sem hófst í austurhéruðum Úkraínu í gærkvöldi var að mestu leyti virt í nótt. Rússar sökuðu þó Úkraínumenn um að hafa brotið vopnahléið og tilkynntu stjórnvöld í Kænugarði einnig að tveir hefðu fallið síðan samkomulagið tók gildi klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Það hefur ekki fengið staðfest.
Til harðra átaka kom í gær í austurhluta Úkraínu, þá aðallega við Debaltseve þar sem hersveitir aðskilnaðarsinna umkringdu úkraínska stjórnarherinn.
Leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk hafði lýst því yfir að svæðið í kringum Debaltseve félli ekki undir samkomulagið.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, áréttaði það í símtali við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Francois Hollande, forseta Frakklands, í gær að þeim bæri að virða vopnahléið. Annað kæmi einfaldlega ekki greina. Margir hafa haft efasemdir um að vopnahléið haldi.
Pútín sagði jafnframt í símtalinu að aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu væru reiðubúnir til þess að leggja niður vopn. Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hefur hótað því að setja á herlög í Úkraínu ef vopnahléið verður ekki virt.