Vopnahléið virt að mestu leyti

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. EPA

Vopnahléið sem hófst í austurhéruðum Úkraínu í gærkvöldi var að mestu leyti virt í nótt. Rússar sökuðu þó Úkraínumenn um að hafa brotið vopnahléið og tilkynntu stjórnvöld í Kænugarði einnig að tveir hefðu fallið síðan samkomulagið tók gildi klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Það hefur ekki fengið staðfest.

Til harðra átaka kom í gær í austurhluta Úkraínu, þá aðallega við Debaltseve þar sem hersveitir aðskilnaðarsinna umkringdu úkraínska stjórnarherinn.

Leiðtogi aðskilnaðarsinna í Donetsk hafði lýst því yfir að svæðið í kringum Debaltseve félli ekki undir samkomulagið.

Vla­dím­ir Pútín, for­seti Rúss­lands, áréttaði það í sím­tali við Ang­elu Merkel, kansl­ara Þýska­lands, og Franco­is Hollande, for­seta Frakk­lands, í gær að þeim bæri að virða vopna­hléið. Annað kæmi ein­fald­lega ekki greina. Marg­ir hafa haft efa­semd­ir um að vopna­hléið haldi.

Pútín sagði jafn­framt í sím­tal­inu að aðskilnaðarsinn­ar í aust­ur­hluta Úkraínu væru reiðubún­ir til þess að leggja niður vopn. Petro Poros­hen­ko, for­seti Úkraínu, hef­ur hótað því að setja á herlög í Úkraínu ef vopnahléið verður ekki virt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert