Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefur miklar efasemdir um að Grikkjum muni takast að knýja fram endurnýjað samkomulag um skuldir ríkisins og kallar hegðun stjórnvalda í Aþenu „óábyrga“.
Fjármálaráðherrar evruríkjanna munu funda í dag, en Schaeuble sagði í samtali við þýska ríkisútvarpið að hann væri fullur efasemda um að lausn fengist í málið.
Grikkir hafa farið fram á að breytingar verði gerðar á björgunarpakka til handa landinu. Stjórnvöld í Brussel vilja að samkomulag þar að lútandi, sem rennur út í lok mánaðarins, verði framlengt en ráðamenn í Aþenu vilja hins vegar endursemja um ýmsa skilmála.
Schaeuble sagði engu líkara en málið væri „einn stór pókerleikur“ fyrir nýkjörin stjórnvöld í Grikklandi, en ítrekaði aðspurður að honum hugnaðist ekki svokallaður „Grexit“, þ.e. að Grikkir gengju úr evrusamstarfinu.
Hann sagði hins vegar að sú ákvörðun væri í höndum Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Schaeuble fordæmdi þær svívirðingar sem hafa verið látnar dynja á evruríkjunum í Grikklandi og sagðist vorkenna Grikkjum. „Þeir hafa kosið yfir sig ríkisstjórn sem hegðar sér með óábyrgum hætti um þessar mundir,“ sagði hann.