Íbúar Kaupmannahafnar vöknuðu upp við vondan draum um helgina. Í stað þess að sjá barnavagna fyrir utan kaffihús og hjólreiðamenn fara um ráðhústorgið án þess að mæta lögreglumanni þá eru þungvopnaðir lögreglumenn út um allt og stöðugt sírenuvæl.
Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um árásir helgarinnar í Kaupmannahöfn en síðdegis á laugardag gerði rúmlega tvítugur maður vopnaða árás á kaffihús í borginni. Þar var hópur fólks kominn saman til þess að ræða málefni líðandi stundar - íslam og tjáningarfrelsið. Þegar árásarmaðurinn flúði af vettvangi lá einn í valnum og þrír lögreglumenn voru sárir.
Strax hófst leit að árásarmanninum og óttast var að um hryðjuverkaárás væri að ræða þar sem meðal þeirra sem stóðu að fundinum er sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks. Hann er þekktur fyrir skopmyndir af Múhameð spámanni og er á lista al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna yfir þá sem eru réttdræpir. Enda fer hann ekki út úr húsi án þess að vera í fylgd lífvarðar.
Vilks segir í samtali við CNN að lögreglan hafi ekki haft roð í árásarmanninn þegar kom að vopnaburði. Lögreglan hafi hins vegar reynt að svara til baka þrátt fyrir að hann hefði ákveðið forskot á þá. Vilks slapp ómeiddur en lífvörður hans flýtti sér með hann inn í öruggt rými. En danski kvikmyndagerðarmaðurinn Finn Nørgaard, 55 ára, var hins vegar ekki svo gæfusamur því hann varð fyrir skoti úr byssu morðingjans, Omar Abdel Hamid El-Hussein, og lést af sárum sínum.
Það var síðan um eitt leytið um nóttina sem fréttir bárust af skotárás á helsta bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn við Krystalgade. Þar lést 37 ára gamall maður, Dan Uzan, gyðingur sem var á vakt í bænahúsinu þetta kvöld en þar fór fram ferming. Tveir lögreglumenn særðust í árásinni.
Um fimmleytið á sunnudagsmorgninum skaut lögreglan árásarmanninn til bana við Nørrebro stöðina eftir að hann hafði skotið á lögreglu.
Tveir samverkamenn í haldi lögreglu
Sunnudagurinn litaðist af sírenuhljóði og ótta meðal borgarbúa en lögreglan tók nokkra fasta við húsleitir. Tveir þeirra hafa nú verið sakaðir um að vera samverkamenn morðingjans með því að hafa útvegað honum vopnin. Síðar í dag mun dómari úrskurða um hvort þeim verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Morðinginn, Omar Abdel Hamid El-Hussein, er fæddur og uppalinn í Danmörku en foreldarar hans eru palestínskir. Hann á lítinn bróður og var í góðu sambandi við báða foreldra sína, en þau eru skilin, að eigin sögn. TV2 hefur birt upplýsingar úr geðrannsókn sem gerð var á honum eftir að El-Hussein stakk annan ungan mann með hníf árið 2013. Það var niðurstaða geðrannsóknarinnar að hann væri heill á geði og sakhæfur. Hann lauk afplánun dómsins fyrir tveimur vikum síðan.
Breyttist í fangelsinu
Danska öryggislögreglan, PET, fékk ábendingu um það frá fangelsismálayfirvöldum að hegðun El-Hussain hefði breyst mjög til hins verra í fangelsinu en líkt og fram kom eftir árásirnar í París í síðasta mánuði var það fangelsisdvöl sem tengdi mennina sem gerðu árásirnar þar saman.
Í viðtali við geðlækni árið 2013 lýstir El-Hussein sér sem rólegum og jákvæðum manni sem eigi auðvelt með að kynnast fólki og sé ljúfur í lund. Hann hafi fengið hefðbundið danskt uppeldi og að eigin sögn alltaf verið til fyrirmyndar. El-Hussein lauk ekki grunnskólanámi en fékk handleiðslu í forritun við háskóla í Kaupmannahöfn. Danska lögreglan hefur upplýst að hann hafi ítrekað komst í kast við lögin vegna vopnalagabrota og ofbeldis en hann tengdist glæpagengi í borginni.
En hvað sem sálarlífi morðingjans líður þá er ljóst að Danir þurfa að búa sig undir nýjan veruleika. Að sögn dómsmálaráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, þá er ekkert rými fyrir einfeldni (naïve) því það eru dimm öfl sem vilja skaða landsmenn.
Breytt landslag í Evrópu
Það er skammt stórra högga á milli, París í janúar og Kaupmannahöfn í febrúar. Í gær var talsvert um að hætt var við samkomur að ótta við hryðjuverk og aðrar ógnir. Frakkar upplifa það nú að mæta hermönnum og lögreglumönnum með alvæpni hvert sem farið er. Ekki er ólíklegt að svipað verði upp á teningnum í Kaupmannahöfn á næstunni. Í Ósló mátti sjá þungvopnaða lögreglumenn víða í sumar þar sem upplýsingar höfðu borist um mögulega árás. Norðmenn eru sennilega á verði enda ekki nema rúm þrjú ár síðan Anders Behring Breivik framdi skelfilegustu fjöldamorð/hryðjuverk sem Norðmenn hafa upplifað. En Breivik myrti 77 á Utøya og í miðborg Óslóar hinn 22. júlí 2011.
Evrópskir gyðingar óttast mjög um líf sitt sem ekki kemur á óvart þar sem bæði í París og Kaupmannahöfn þá voru gyðingar meðal fórnarlamba árása, af þeim 17 sem voru drepnir í París þá voru fjórir gyðingar. Í Kaupmannahöfn var annar þeirra sem var myrtur gyðingur. Eins eru ekki nema sjötíu ár liðin frá því nasistar drápu fleiri milljónir gyðinga í Evrópu.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hvatti í gær evrópska gyðinga til þess að flytja heim til Ísraels þar sem hann óttast bylgju árása gagnvart gyðingum í Evrópu.
Múslímaráð Danmerkur hefur fordæmt árásirnar og segir í yfirlýsingu frá ráðinu að öll trúarbrögð verði að greina sig frá og forðast tengingu við hryðjuverk.
Danski forsætisráðherrann, Helle Thorning-Schmidt, varaði þjóð sína við því að höfuðborg landsins muni fá nýja ásýn á næstunni og að búast megi við að svo verði í einhvern tíma þar sem lögregla er mun sýnilegri en áður hefur þekkst.
En allt bendir til þess að Danir ætli að taka á þessu eins og Frakkar gerðu svo eftirminnilega þegar milljónir fóru út á götur og áletrunin „Je suis Charlie“ varð almenningseign. Ný áletrun er nú farin að sjást víða: „Jeg er dansk“ og má búast við miklu fjölmenni fyrir utan menningarmiðstöðina þar sem fórnarlamba árásanna verður minnst klukkan átta í kvöld.
Byggt á fréttum fjölmargra fjölmiðla svo sem: Berlingske, danska ríkisútvarpsins, TV2, Ekstrabladet, Bloomberg, CNN, Guardian, BBC, New York Times og AFP.