Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks er farinn í felur um óákveðinn tíma. Þetta staðfestir talsmaður sænsku lögreglunnar í samtali við fréttaveituna AFP.
Talið er að Vilks hafi verið skotmark árásarinnar sem gerð var á kaffihús í Kaupmannahöfn um helgina. Þar fór fram ráðstefna um tjáningarfrelsið sem Vilks stóð meðal annars að. Árásarmaðurinn, Omar Abdel Hamid el-Hussein, var í kjölfarið felldur af lögreglu. Einnig var gerð árás á bænahús gyðinga í borginni.
Haft er eftir talsmanninum, Ewa-Gun Westford, að heimili Vilks í Hoeganaes í suðurhluta Svíþjóðar sé ekki talið öruggur staður lengur „og hann verður að vera á öruggum stað.“ Vilks hefur lengi þótt umdeildur fyrir skopmyndir sínar af Múhameð spámanni múslima. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að ráða hann af dögum.