Tveir menn eru í haldi dönsku lögreglunnar en þeir eru taldir hafa útvegað Omar Abdel Hamid El-Hussein byssur sem hann notaði við morðin á laugardag í Kaupmannahöfn. El-Hussein var nýlega látinn laus úr fangelsi en hann sat inni fyrir líkamsárás.
Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla í morgun og tilkynningu frá lögreglunni eru mennirnir í haldi lögreglu en að sögn verjanda þeirra þá eru þeir saklausir af því að hafa útvegað El-Hussien vopnin sem hann notaði í árásunum á Krudttønden kaffihúsinu á Østerbro og við bænahúsið í Krystalgade.
Tvímenningarnir voru leiddir fyrir dómara og hefur lögreglan krafist gæsluvarðhalds yfir þeim. Lögreglan skaut El-Hussein til bana um fimmleytið aðfaranótt sunnudags.
Danska lögreglan handtók fleiri í tengslum við rannsóknina í gær en annar mannanna var handtekinn klukkan 8.14 í gærmorgun og hinn klukkan 14.50.
Samkvæmt heimildum Jyllands Posten var hann ekki talinn vera með nein tengsl við íslömsk öfgasamtök heldur aðeins hefðbundin glæpasamtök. Hann hafi aldrei komið til Sýrlands né Íraks og ekki hlotið neina þjálfun hjá hryðjuverkasamtökum.