Tveir samverkamenn handteknir

Omar Abdel Hamid El-Hussein
Omar Abdel Hamid El-Hussein EPA

Tveir menn eru í haldi dönsku lögreglunnar en þeir eru taldir hafa útvegað Omar Abdel Hamid El-Hussein byssur sem hann notaði við morðin á laugardag í Kaupmannahöfn. El-Hussein var nýlega látinn laus úr fangelsi en hann sat inni fyrir líkamsárás.

Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla í morgun og tilkynningu frá lögreglunni eru mennirnir í haldi lögreglu en að sögn verjanda þeirra þá eru þeir saklausir af því að hafa útvegað El-Hussien vopnin sem hann notaði í árásunum á Krudttønden kaffihúsinu á Østerbro og við bænahúsið í Krystalgade.

Tvímenningarnir voru leiddir fyrir dómara og hefur lögreglan krafist gæsluvarðhalds yfir þeim. Lögreglan skaut El-Hussein til bana um fimmleytið aðfaranótt sunnudags.

Danska lögreglan handtók fleiri í tengslum við rannsóknina í gær en annar mannanna var handtekinn klukkan 8.14 í gærmorgun og hinn klukkan 14.50.

Tveir létust í árásum El-Husseins, Finn Nørgaard, 55 ára og Dan Uzan, 37 ára. Þeirra verður minnst í kvöld við Krudttønden kaffihúsið þar sem  Nørgaard var skotinn til bana. Yfir 12 þúsund manns hafa boðað komu sína þangað samkvæmt Facebook-síðu sem sett hefur verið upp.
Á blaðamannafundi dönsku lögreglunnar í gær kom fram að El-Hussein væri þekktur ofbeldismaður en hann var dæmdur í fangelsi fyrir að hafa stungið annan mann með hníf á lestarstöð. Þrátt fyrir að dómur hafi ekki fallið í máli hans fyrr en í desember þá sat El-Hussein á bak við lás og slá í rúmt ár áður en dómur var kveðinn upp. El-Hussein var 22 ára, fæddur og uppalinn í Danmörku.

Samkvæmt því sem hefur komið fram í dönskum fjölmiðlum þá starfaði El-Hussein með glæpasamtökum og hafði ítrekað komist í kast við lögin vegna brota á vopnalögum og ofbeldisverka.

Samkvæmt heimildum Jyllands Posten var hann ekki talinn vera með nein tengsl við íslömsk öfgasamtök heldur aðeins hefðbundin glæpasamtök. Hann hafi aldrei komið til Sýrlands né Íraks og ekki hlotið neina þjálfun hjá hryðjuverkasamtökum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert