Gríska þingið mun kjósa um ýmsar félagslegar umbætur á föstudag, sem sumar hverjar eru sagðar ganga gegn skilmálum björgunarpakkans sem Grikkir sömdu um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandið. Frestur grískra stjórnvalda til að óska eftir framlengingu á björgunarpakkanum rennur út sama dag.
„Við munum ekki gefa undan andlegum kúgunum,“ sagði forsætisráðherrann Alexis Tsipras eftir að viðræður í Brussel fóru út um þúfur í gær. Þar hafnaði fjármálaráðherrann gríski samkomulagi sem er háð framlengingu björgunarpakkans, en Grikkir hafa viljað endursemja, ekki endurnýja.
Í ljósi þess hvernig viðræður fóru í gær, þykja líkur auknar á því að Grikkir gangi úr evrusamstarfinu.
Tsipras sagði að Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefði „tapað ró sinni“ fyrir fundinn í gær, eftir að Schaeuble sagðist finna til með Grikkjum. „Ég vil segja honum, með mikilli virðingu og í vinskap, að hann ætti að finna til með fólki sem gengur með höfuðið beygt,“ sagði Tsipras, og vísaði til þess sem ráðamenn í Aþenu hafa ítrekað sagt; að Grikkir muni ekki beygja sig fyrir þýskri meinlætastefnu.
Tsipras sagði frumvörpin sem tekin verða fyrir á föstudag miða að því að taka á þeirri mannúðarkreppu sem björgunarpakkauppskriftin hefði komið á. „Þetta er sú skuld sem við verðum fyrst að greiða. Við munum ekki bregðast trausti grísku þjóðarinnar,“ sagði hann.