Leiðinni sem fjallgöngumenn fara á hæsta fjall heims, Everest, verður breytt í næsta mánuði vegna aukinnar hættu á snjóflóðum á þeirri leið sem hingað til hefur verið farin.
Í fyrra létust 16 fjallgöngumenn á leið sinni á tindinn í snjóflóði en slysið er það alvarlegasta í sögu fjallsins.
Um er að ræða þann hluta leiðarinnar sem liggur frá grunnbúðum. Verður nú farið meira inn að miðju og þannig hætt að fara vinstri hlið Khumbu Icefall en slysið í fyrra varð þar.
Eftir slysið í fyrra neituðu sjerpar, sem annast leiðsögn á Everest að fara í fleiri ferðir fyrr en þeir fengju launahækkun og betri aðbúnað. Endaði þetta með því að hætt var við alla leiðangra á Everest um tíma.
Á BBC kemur fram að yfirvöld í Nepal telji nauðsynlegt að auka öryggi á þessari leið áður en klifurtímabilið hefst í vor. Þau telja að aukin snjóflóðahætta sé á vinstri hlið Khumbu Icefall og vilja að leiðangrar færi sig nær miðjunni þar sem hættan er lítil sem engin. Ekki er um nýja leið að ræða því fjallgöngumenn fóru þessa leið fyrir tveimur áratugum og fyrr. En árið 1990 var leiðinni breytt og „vinstri öxlin“ frekar farin þar sem hún er styttri og auðveldari.