Leggja til sex vikna vopnahlé

Sýrlensk börn í appelsínugulum göllum standa í búri við rústir …
Sýrlensk börn í appelsínugulum göllum standa í búri við rústir í Douma um helgina. Gjörningurinn var þáttur í mótmælum gegn átökunum í landinu og aðgerðarleysi alþjóðasamfélagsins. AFP

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands segir Sýrlandsstjórn reiðubúna til að láta af loft- og stórskotaárásum á uppreisnarmenn í Aleppo í sex vikur, til að greiða fyrir mannúðaraðstoð í borginni.

Fleiri en 150 létust þegar stjórnarherinn tók yfir helstu leið uppreisnarmanna til að koma birgðum til borgarinnar í gær.

„Ríkisstjórn Sýrlands hefur tjáð mér vilja sinn til að gera hlé á loft- og stórskotaárásum um sex vikna skeið, alls staðar í borginni Aleppo, frá og með dagsetningu sem verður tilkynnt frá Damascus,“ sagði Staffan De Mistura í samtali við blaðamenn eftir að hann ávarpaði öryggisráð SÞ.

Uppreisnarmenn ráða ekki yfir vopnum til að gera árásir úr lofti, en þess yrði krafist af þeim að þeir létu af flugskeyta- og sprengjuvörpuárásum. „Markmiðið er að hlífa eins mörgum almennum borgurum og mögulegt er á meðan við reynum að finna pólitíska lausn,“ sagði De Mistura.

De Mistura þykir ekki hafa orðið mikið ágengt síðan hann tók við embætti í júlí í fyrra. Þá uppskar hann reiði stjórnarandstæðinga í síðustu viku þegar hann sagði að forsetinn, Bashar al-Assad, væri „hluti af lausninni“ á borgarastyrjöldinni í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert