Úkraínskar hersveitir hörfa

Úkraínskir hermenn á skriðdreka við bæinn Debaltseve.
Úkraínskir hermenn á skriðdreka við bæinn Debaltseve. AFP

Bandaríkin hafa sakað Rússa um að rjúfa vopnahléið í Úkraínu, en fregnir herma að sveitir Úkraínuhers séu farnar að hörfa frá bænum Debaltseve. Þar hafa harðir bardagar geisað síðustu daga þrátt fyrir vopnahléið, en bærinn tengir Donetsk og Luhansk, sem bæði eru á valdi aðskilnaðarsinna.

Samantha Power, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, sagði kaldhæðnislegt að Rússar legðu fram samþykkt varðandi vopnahléið á sama tíma og þeir stæðu á bak við skilyrðislausa árás í Úkraínu.

Leiðtogar hersveita óbreyttra borgara hliðhollir Kíev sögðu í morgun að svo virtist sem hersveitir væru farnar að hörfa frá Debaltseve, en bærinn hefur sætt umsátri aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings frá Rússum.

Fréttamenn Associated Press, sem staðsettir voru á veginum til bæjarins Artemivsk, sem er á valdi Úkraínuhers, sögðust sömuleiðis hafa séð úkraínskar hersveitir hörfa með vopn sín frá Debaltseve.

Aðskilnaðarsinnarnir sögðu að þeir hefðu náð valdi á bænum og boðið hermönnum Úkraínustjórnar að gefast upp og leggja niður vopn. Stjórnvöld segja þetta ekki rétt. Anatoliy Stelmakh, talsmaður Úkraínuhers, sagði í dag að uppreisnarmennirnir hefðu gert fimm stórskotaárásir á Debaltseve í nótt, og þar með brotið gróflega gegn vopnahléssamkomulaginu.

Uppreisnarmennirnir náðu hluta bæjarins á sitt vald á þriðjudag. Samkvæmt Guardian leitaðist Vladimir Pútín Rússlandsforseti við að fresta vopnahléinu um tíu daga til að gefa aðskilnaðarsinnunum tíma til að ná bænum.

Pútín ráðlagði stjórnvöldum í Kíev í gær að heimila hermönnum sínum að gefast upp fyrir uppreisnarmönnunum. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hefur hins vegar harðlega gagnrýnt átökin og varað við því að Rússar muni gjalda fyrir áframhaldandi brot gegn vopnahléinu.

Guardian sagði frá.

Uppfært kl. 10.50:

BBC hefur eftir Petro Poroshenko, forseta Úkraínu, að 80% úkraínskra hersveita í Debaltseve hafi yfirgefið bæinn. Fleiri munu fylgja í kjölfarið.

Hermenn elda í herbúðum nærri Debaltseve.
Hermenn elda í herbúðum nærri Debaltseve. EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert