Maðurinn sem lenti í því að stuðningsmenn knattspyrnuliðsins Chelsea hömluðu honum frá því að ganga um borð í neðanjarðarlest í París, segir að eftir að hafa séð myndband af atvikinu hafi hann fundið sig knúinn til að leita til lögreglu.
Myndbandið hefur farið eins og eldur í sinu um netheima, en það sýnir stuðningsmenn knattspyrnuliðsins syngja: „Við erum rasistar, við erum rasistar og þannig viljum við hafa það“. Á myndbandinu sést jafnframt hvernig þeir ýta manninum, hinum 33 ára gamla Souleymane S., út úr lestinni.
Í viðtali við Le Parisien, sagði Souleymane að hatursorðfærið hefði ekki komið honum á óvart þar sem hann „lifði með kynþáttahatri“. Hann hafði ekki sagt fjölskyldu sinni frá atvikinu en eftir að hann sá myndbandið og það var komið í dreifingu, fékk hann sjálfsöryggi til að leita til lögreglu.
Souleymane er fæddur í París en á rætur sínar að rekja til Máritaníu og er þriggja barna faðir.
„Hvað gat ég sagt börnunum mínum? Að pabba hefði verið hrint í neðanjarðarlestinni af því að hann er svartur?“ sagði Souleymane um ástæður þess að hann hélt atvikinu fyrir sig.
Málið er í rannsókn. Bresk lögregluyfirvöld hafa boðið lögreglunni í París aðstoð við að bera kennsl á þá sem brutu gegn Souleymane og þá hefur knattspyrnuliðið einnig boðið fram aðstoð sína.
Kynþáttaníð knattspyrnubulla rannsakað