Samfélög verði að axla ábyrgð

Obama sagði samtök á borð við Ríki íslam notfæra sér …
Obama sagði samtök á borð við Ríki íslam notfæra sér þegar reiði grasseraði meðal fólks vegna óréttlætis eða vonleysis um framtíðina. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir Bandaríkin ekki í stríði við íslam, heldur fólk sem hefur spillt fyrir trúnni. Hann sagði ríki heims þurfa að horfast í augu við hverja þá hugmyndafræði sem gerir fólk að róttæklingum.

Ummælin lét Obama falla á ráðstefnu um öfgahyggju í Washington. Hann sagði þá sem fara fyrir hópum á borð við Ríki íslam og al-Kaída ekki trúarleiðtoga, heldur hryðjuverkamenn. Þá sagði hann að tengja samtökin við íslam jafngilti því að gleypa við áróðri þeirra.

Obama hefur farið þess á leit við bandaríska þingið að það heimili hernaðaraðgerðir gegn Ríki íslam í Írak og Sýrlandi, en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa staðið að loftárásum gegn samtökunum frá því í fyrra.

Á ráðstefnunni sagði Obama að stríðið gegn ofbeldisfullri öfgahyggju yrði þó ekki unnið með hernaðarmættinum einum saman. Hann sagði samfélög þurf að axla sína ábyrgð. „Þessir hryðjuverkamenn eru fyrst og fremst ógn við þau samfélog sem þeir gera að skotmörkum sínum,“ sagði hann.

Forsetinn sagði einnig að það væru múslimar víða um heim sem væru ekki endilega samþykkir ofbeldisfullum aðferðum Ríkis íslam, en væru sammála því að íslam hefði verið mengað vestrænum gildum. Það gerði einstaklinga ginnkeypta fyrir róttækni.

„Leiðtogar múslima verða að gera meira til að draga úr þeirri trú að þjóðir okkar séu staðráðnar í því að bæla niður íslam,“ sagði Obama.

Í grein sem forsetinn ritaði fyrir Los Angeles Times, sagði hann að samtök á borð við Ríki íslam og al-Kaída nýttu sér þá reiði sem grasseraði þegar fólki upplifði óréttlæti og vonleysi varðandi framtíðina. Hann sagði heiminn þurfa að bjóða ungu fólki eitthvað betra.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert