Nýja ríkisstjórn Grikklands, sem komst til valda í kosningum í janúar, kynnti í gær samkomulag sitt við Evrópusambandið heimafyrir. Samkomulagið sætir töluverðri gagnrýni og þykir mörgum það ekki vera í takt við loforð ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar.
Á fundi ríkisstjórnarinnar með fulltrúum ESB í gær náðist samkomulag sem veitir Grikkjum tvo daga til þess að koma með eigin hugmyndir að aðhaldsaðgerðum. Ríkisstjórn Grikklands komst til valda í janúar með loforð um að berjast gegn hverjum þeim aðhaldsaðgerðum sem ESB legði til. Grikkir báðu á fundinum um fjárhagsaðstoð næstu sex mánuðina, sem á að gera þeim kleift að gera fjögurra ára fjárhagsáætlun þar sem horfið verður frá helstu aðhaldsaðgerðunum sem fyrri ríkisstjórn innleiddi.
Þeim varð þó ekki að ósk sinni á fundinum, því Evrópusambandið veitti Grikkjum fjögurra mánaða frest til þess að skila inn fjárhagsáætlun, en í millitíðinni fá þeir engin lán frá sambandinu.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar sögðu við blaðamenn á Grikklandi að þeir hefðu á fundinum komið í veg fyrir áframhaldandi niðurskurð í lífeyriskerfinu og skattahækkanir. Fulltrúi stjórnarandstöðunnar gaf hins vegar lítið fyrir árangur ríkistjórnarinnar, og talaði um að niðurstaða fundarins hafi verið stórt skref aftur á bak, og sakaði fulltrúa ríkisstjórarinnar um að setja á svið pólitískt leikrit.