Fjölskyldur tveggja breskra skólastúlkna grátbændu þær í dag að snúa aftur heim til sín en talið er að þær séu ásamt þriðja stúlkunni á leið til Sýrlands til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.
Fram kemur í frétt AFP að vinkonurnar Kadiza Sultana 17 ára og Shamima Begum 15 ára hafi yfirgefið heimili sín í London höfuðborg Bretlands á þriðjudaginn og flogið til Istanbúl í Tyrklandi ásamt annarri 15 ára stúlku sem hefur ekki verið nafngreind að ósk fjölskyldu hennar. Þeir sem gengið hafa til liðs við Ríki íslams hafa iðulega farið í gegnum Tyrkland og þaðan til Sýrlands.
Haft er eftir fjölskyldu Sultanas að hún sé algerlega niðurbrotin vegna málsins. „Við elskum þig svo mikið og síðustu fjórir dagar hafa verið alger martröð,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunni. „Við söknum þín gríðarlega, sérstaklega mamma þín, og lífið er ekki eins án þín.“ Fjölskylda Begum bætti við að hún hefði miklar áhyggjur af henni.
„Sýrland er hættulegur staður og við viljum ekki að þú farir þangað. Við skiljum að þú hafir sterkar skoðanir og viljir hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda í Sýrlandi. Þú getur hjálpað frá heimili þínu, þú þarft ekki að leggja sjálfa þig í hættu.“
Lögreglan telur að stúlkurnar ætli að fara að fordæmi vinkonu sinnar sem gekk til liðs við Ríki íslams í desember. Þær voru yfirheyrðar af lögreglunni eftir að vinkona þeirra fór til Sýrlands en ekki var talin hætta á að þær gerðu slíkt hið sama. Sérfræðingar telja að um 50 konur hafi farið frá Bretlandi til Sýrlands til þess að ganga til liðs við Ríki íslams.