Franski innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve hitti í gær fulltrúa hátæknifyrirtækjanna Apple, Facebook, Google og Twitter þar sem ræddar voru leiðir til þess að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn notuðu framleiðslu þeirra til að koma áróðri sínum á framfæri.
Fram kemur í frétt AFP að Cazeneuve hafi sagt við fjölmiðla eftir fundinn að umræðurnar á honum hafi verið hreinskilnar og gagnlegar. Hugmyndin væri að koma á nánari tengslum við helstu fyrirtækin í Kísildal (Silicon Valley) í Kaliforníu í Bandaríkjunum, þar sem mörg helstu hátæknifyrirtæki heims eru með starfsemi, til þess að hægt yrði að stöðva eða svara áróðri hryðjuverkamanna á netinu með skjótvirkari hætti.
„Við viljum ekki þurfa að fara í gegnum hefðbundnar leiðir opinberra samskipta sem tekur alltof mikinn tíma. Það er mikilvægt að verið í beinum samskiptum,“ sagði ráðherrann. Hann hafi lagt áherslu á það á fundinum að hatursáróðri á netinu væri svarað til þess að vernda þá sem væru viðkvæmir fyrir slíkum málflutningi og koma í veg fyrir að þeir gengju í lið með hryðjuverkamönnum.