Einn af hverjum fimm Þjóðverjum telur að bylting sé eina raunhæfa leiðin til þess að koma á samfélagslegum umbótum samkvæmt rannsókn sem birt var í dag af Freie Universität Berlin.
Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að samkvæmt niðurstöðunum séu Þjóðverjar ennfremur lengra til vinstri pólitískt en áður hafi verið talið. Þannig hafi meðal annars komið fram mikil andstaða við kapítalisma og fasisma. Vinstrisinnuð sjónarmið reyndust meira áberandi í austurhluta Þýskalands en vesturhlutanum.
Spurt var í rannsókninni hvort fólk væri sammála eftirfarandi staðhæfingu: Lífsskilyrði verða ekki bætt með umbótum - við þurfum byltingu.“ Hliðstætt hlutfall sagðist telja uppgang fasisma í Þýskalandi vera raunverulega ógn og þriðjungur sagðist sammála því að kapítalismi ylli fátækt og hungri.