Heitir „varanlegum sigri“

Carter ávarpaði bandaríska hermenn í Arifjan-herstöðinni í Kúveit í dag.
Carter ávarpaði bandaríska hermenn í Arifjan-herstöðinni í Kúveit í dag. AFP

Ashton Carter, nýútnefndur varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur heitið „varanlegum sigri“ í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam. Carter boðaði á þriðja tug háttsettra hershöfðingja og diplómata til fundar í herstöð Bandaríkjamanna í Kúveit til að fara yfir stöðu mála.

Meðal fundarmanna voru sendiherrar og fulltrúar leyniþjónustunnar, en fyrir fundinn ávarpaði Carter bandaríska hermenn í Arifjan-herstöðinni og sagði Bandaríkin og bandamenn þrengja að liðsmönnum Ríkis íslam frá Kúveit og annars staðar frá.

„Og verið ekki í vafa, við munum hafa varanlegan sigur,“ sagði varnarmálaráðherrann.

Carter sagði að hann hefði boðað til fundarins til að fara yfir allar hliðar baráttunnar. Umræður myndu ekki bara ná til Írak og Sýrlands, þar sem Bandaríkjamenn og fleiri hafa staðið fyrir loftárásum á bækistöðvar Ríkis íslam, heldur aðgerða gegn samtökunum á svæðinu í heild.

Spurður að því hvort stjórnvöld í Washington íhuguðu að blanda sér í bardaga á jörðu niðri, sagði Carter að allar ákvarðanir um frekari hernaðaraðgerðir yrðu íhugaðar varlega. Hann bætti því hins vegar við að allt yrði gert sem gera þyrfti til að hafa sigur.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir loftárásum en dregið línuna við að senda hermenn inn á átakasvæði.

Loftárásirnar hafa nú staðið yfir í sex mánuði og þykja hafa skilað nokkrum árangri. Þær hafa m.a. gert hersveitum Kúrda kleift að vinna aftur nokkur svæði í norðurhluta Írak og sýrlenska bæinn Kobane á landamærum Tyrklands.

Jíhadistarnir hafa hins vegar enn á valdi sínu stór landsvæði í Írak og Sýrlandi, og virðast hafa náð fótfestu í Líbíu. Síðustu daga hafa samtökin lýst á hendur sér sprengjuárásum þar í landi og morði 21 kopta.

Ekki stóð til að hamra saman nýja sóknaráætlun á fundinum í dag,  heldur var honum ætlað að upplýsa Carter um stöðu mála, m.a. varðandi viðleitni stjórnvalda í Írak til að fá súnníta til að taka upp vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert