Níu eru látnir eftir að byssumaður hóf skothríð á veitingastað í borginni Uhersky Brod í austurhluta Tékklands fyrr í dag. Frá þessu greinir AFP fréttastofan.
Lögregla hefur enn ekki gefið út nánari upplýsingar um málið, en talsmaður lögreglunnar, Pavel Benedikt Stransky sagði að búið væri að yfirbuga byssumanninn.
Uhersky Brod er tæpa 300 kílómetra norðaustur af Prag og þar búa í kringum átján þúsund manns.
Uppfært 15:10:
Á tékknesku fréttastöðinni CTK var haft eftir Milan Shocanec, innanríkisráðherra landsins, að fórnarlömbin hefðu verið átta. Þá kom þar fram að byssumaðurinn væri jafnframt látinn. Auk þess er ein kona alvarlega slösuð.
„Byssumaðurinn réðst inn á veitingastaðinn í kringum hádegi og skaut handahófskennt. Hann hleypti af um 25 skotum. Það hafa verið um þrjátíu manns á veitingastaðnum þegar hann kom inn,“ sagði Matthew Day, fréttaritari The Telegraph í Varsjá.
Uppfært 15:20:
Byssumaðurinn er sagður hafa verið heimamaður í kringum sextugt. Í frétt The Telegraph kemur fram að honum hafi verið lýst sem „óstöðugum.“
Eitt vitni komst undan með því að fela sig á klósettinu, en aðrir flúðu í gegnum eldhúsið á veitingastaðnum.
Uppfært 15:35:
Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að byssumaðurinn hafi skotið í hugsunarleysi.
Forsætisráðherra Tékklands, Bohuslav Sobotka, segir árásina mikið áfall samkvæmt tékkneskum miðlum.
Þá hefur Milan Chovanec, innanríkisráðherra landsins, sagt á Twitter að hann sé á leið á vettvang.
Uppfært 15:47:
Samkvæmt AFP fréttastofunni sneri maðurinn byssunni að sjálfum sér eftir skotárásina og fyrirfór sér. Hann hafði glímt við andleg veikindi að því er fram kemur á AFP.
Þá kemur fram að skotárásin hafi átt sér stað á veitingastaðnum Friendship.
Ekki er ljóst hver ástæða árásarinnar var, en samkvæmt lögreglu bendir ekkert til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Árásarmaðurinn á að hafa hringt í sjónvarpsstöðina Prima skömmu fyrir árásina og greint frá því hvað hann hafði í hyggju. Hafði fréttamaðurinn sem svaraði honum samband við lögreglu og lét vita af því hvað maðurinn hugðist gera.
Skotárásir eru afar sjaldgæfar í Tékklandi.
Breaking: Scene of restaurant shooting in town of Uhersky Brod, Czech Republic. 8 dead, "subdued" pic.twitter.com/lRDIv9p2FY @CT24zive
— Lisa Daftari (@LisaDaftari) February 24, 2015