Fyrsti Kóreubúinn í Ríki íslams

AFP

Átján ára suðurkóreskur unglingur sem hvarf að heiman í síðasta mánuði hefur gengið til liðs við samtökin Ríki íslams og er í þjálfunarbúðum á vegum samtakanna, samkvæmt upplýsingum frá leyniþjónustu Suður-Kóreu.

Pilturinn, sem heitir Kim, hvarf í Tyrklandi þann 10. janúar og hefur verið orðrómur um að hann hefði stungið af til Sýrlands til þess að berjast með öfgasamtökunum. Í skýrslu leyniþjónustunnar til þingsins í Seúl kemur fram að Kim væri í læri í búðum Ríki íslams. 

Síðast sást til Kim, sem hafði flosnað upp úr námi, á hóteli sem hann gisti á í borginni Kilis en hún er ekki langt frá landamærum Sýrlands.

Á öryggismyndavélum sést Kim stíga upp í óskráða leigubifreið við mosku skammt frá hótelinu. Þaðan lá leið þeirra að flóttamannabúðum í Besiriye, 18 km suðaustur af Kilis.

Að sögn lögreglu í Suður-Kóreu hafi sett inn fjölda skilaboða inn á Twitter síðu sína í október þar sem hann bað um aðstoð við að komast í samband við Ríki íslams.

Foreldrar Kims leyfðu honum að ferðast til Tyrklands í fylgd með fjölskylduvini eftir að Kim hafði óskað eftir fararleyfi til að hitta vin sem hann hafði kynnst á netinu.

Yfir þrjú þúsund Evrópubúar hafa gengið til liðs við Ríki íslams í Írak og Sýrlandi en Kim er fyrsti Suður-Kóreubúinn sem vitað er til að hafa gengið í samtökin.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert