Snjóbolti útilokar hlýnun jarðar

Þrátt fyrir snjóþungan vetur vestanhafs verður loftslagsbreytingum varla neitað.
Þrátt fyrir snjóþungan vetur vestanhafs verður loftslagsbreytingum varla neitað. AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn James Inhofe frá Oklahoma notaðist við snjóbolta til að sýna fram á að loftslagsbreytingar væru ekki raunverulegar. Gerði hann þetta í ræðu sinni á þinginu síðastliðinn fimmtudag.

„Við erum alltaf að heyra að árið 2014 hafi verið hlýjasta árið síðan mælingar hófust. Ég spyr salinn, vitið þið hvað þetta er? Þetta er snjóbolti úr snjó hér fyrir utan. Þannig að það er mjög, mjög kalt úti - mjög óvenjulegt miðað við árstíma,“ sagði Inhofe áður en hann kastaði sjóboltanum til forseta þingsins og bað hann að grípa sendinguna.

Inhofe er formaður nefndar þingsins um umhverfismál en árið 2003 kallaði hann loftslagsbreytingar „mesta gabb gert hefur verið gegn bandarískum almenningi.“ Árið 2012 bætti hann um betur og gaf út bók um málaflokkinn sem heitir „The Greatest Hoax: How the Global Warming Conspiracy Threatens Your Future,“ sem útleggjast myndi á íslensku sem „Mesta gabbið: Hvernig samsærið um loftslagsbreytingar ógnar framtíð þinni.“

Yfirstandandi vetur er sá sjötti hlýjasti sem mælst hefur í Bandaríkjunum síðan mælingar hófust á 19. öld. Umhverfisverndarsinninn Melinda Pierce var enda fljót að svara þingmanninum fullum hálsi.

„Á meðan yfirgnæfandi meirihluti Bandaríkjamanna krefja þingið um að verja samfélagið og lýðheilsu með því að minnka kolefnismengun, þá hefur Inhofe sýnt okkur að meiri líkur eru á snjóbolta í helvíti en að forysta Repúblikanaflokksins geri eitthvað annað en að ganga erinda framleiðenda jarðefnaeldsneytis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert