Jihadi John skotmark Bandaríkjamanna

Emwazi sést hér klæddur í búning samtakanna. Myndin er samsett …
Emwazi sést hér klæddur í búning samtakanna. Myndin er samsett af skjáskotum úr aftökumyndböndum. EPA

Böðullinn Mohammed Emwazi, eða Jihadi John eins og hann var nefndur áður en til nafnbirtingar kom, er sérstakt skotmark Bandaríkjahers. Þetta staðfesti öldungadeildarþingmaður demókrata við bandaríska fjölmiðla.

Emwazi, sem er fæddur í Kúveit, er 27 ára og menntaður í Lundúnum. Breska leyniþjónustan hefur vitað af honum í talsverðan tíma. Hann birtist fyrst í myndbandi í ágúst sl. þar sem hann tók bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi. Hann er einnig talinn hafa birst í myndböndum sem sýna afhöfðanir blaðamannsins Stevens Sotloff, breska hjálparstarfsmannsins David Haines, breska leigubílstjórans Alans Henning og bandaríska hjálparstarfsmannsins Abduls-Rahman Kassig, sem gekk einnig undir nafninu Peter.

Dianne Feinstein, öldungadeildarþingmaður demókrata, sagði í samtali við fjölmiðla vestra í dag að Emwazi sé skotmark bandaríkjahers. „Ó já, hann er skotmark. Það er engin spurning um það,“ sagði Feinstein.

Hún sagði einnig að saga Emwazi bendi til þess að vestræn ríki glími við afar stórt vandamál. „Við sjáum að fjölmargt ungt fólk er afar óánægt [með samfélagið á Vesturlöndum]. Hvort sem fólkið upplifir sig sem afstyrmi eða að þau fái ekki tækifærin sem þau vilja veit ég ekki. Kannski upplifa þau Bandaríkin sem and-múslímsk, sem þau eru ekki.“

Dianne Feinstein.
Dianne Feinstein. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert