Hvorki Bandaríkin né bandamenn þeirra hafa fengið beiðni frá íröskum stjórnvöldum um aðstoð í bardaganum um Tikrit, sem nú stendur yfir. Um er að ræða umfangsmestu aðgerðir Íraksstjórnar gegn Ríki íslam til þessa, en hún nýtur stuðnings Írans í átökunum um borgina.
Bandaríkin og bandamenn hafa staðið fyrir þúsundum loftárása gegn Ríki íslams í Írak og Sýrlandi, en að sögn talsmanns bandaríska varnarmálaráðuneytisins koma þau ekki að aðgerðum í Tikrit. Óljóst er hvort aðkoma stjórnvalda í Teheran ræður þar einhverju um.
Fjölmiðlar í Írak og Íran hafa sagt frá því að Qassam Soleimani, íranskur sérsveitarforingi, sé á svæðinu til að hafa umsjón með aðgerðum. Fyrir liggur að íraskar herflugvélar taka þátt í bardaganum en óljóst er hvort vélar hafi verið sendar frá Íran.
Talsmaður Pentagon neitaði að svara þeirri spurningu hvort Írakar notuðust við gögn frá bandarískum eftirlitsflugvélum í aðgerðunum. Þá vildi hann ekki tjá sig um þátt Írana.
Bardaginn um Tikrit að hefjast