Norska ríkið mun í dag ganga frá samningi við hollensk yfirvöld um að leigja 242 fangelsisrými þar í landi vegna langra biðlista eftir vistun í Noregi.
Dómsmálaráðherra Noregs, Anders Anundsen, mun skrifa undir samninginn ásamt hollenskum starfsbróður sínum, Fred Teeven, í Norgerhaven-fangelsinu í norðurhluta Hollands síðdegis.
Síðan þarf norska ríkið að samþykkja samkomulagið, að því er segir í frétt norska ríkisútvarpsins. Ef það verður gert verður fangelsið næsta heimili norskra glæpamanna. Yfir eitt þúsund sakamenn bíða nú vistunar í Noregi.
Þegar fyrst var rætt um samkomulagið í norskum fjölmiðlum í september í fyrra gerði Vidar Brein-Karlsen, talsmaður dómsmálaráðuneytisins, lítið úr áhyggjum þeirra sem töldu þetta ótækt þar sem ættingjar og vinir gætu ekki heimsótt fanga ef þeir væru vistaðir í Hollandi.
Þá benti hann á að Noregur væri víðfeðmt land og fangar sem væru búsettir í Norður-Noregi gætu alveg eins átt von á því að afplána í fangelsum í Suður-Noregi. Það væri í raun og veru styttra á milli Óslóar og Hollands.
Hollendingar hafa þegar leigt út um 300 fangelsispláss til belgískra yfirvalda sem glíma við sambærilegan vanda og Norðmenn.
Í Hollandi er útlit fyrir að það sé hægt að loka nítján fangelsum og er nú svo komið að fangaverðirnir eru víðar fleiri en fangarnir. Helsta ástæðan er aukin áhersla á samfélagsþjónustu. Allt frá árinu 2001 hafa þeir sem fá stutta dóma verið dæmdir til samfélagsþjónustu fremur en vistunar í fangelsi. Ef refsingin er átta mánaða fangelsi eða styttri er viðkomandi gert að gegna samfélagsþjónustu í fjóra mánuði. Eins hefur aukin áhersla verið lögð á notkun ökklabanda. Er nú jafnvel rætt um að fangar í Hollandi þurfi að greiða hluta kostnaðar við fangelsisvistunina.