BBC ákvað að flýta sýningu heimildarmyndarinnar India's Daughter, í kjölfar þess að stjórnvöld á Indlandi bönnuðu myndina. Til stóð að sýna myndina á sunnudag, á alþjóðlega kvennadeginum, en þess í stað var myndin sýnd á BBC4 í kvöld.
Samkvæmt inversku sjónvarpsstöðinni NDTV ákvað Leslee Udwin, kvikmyndagerðarkonan á bakvið India's Daughter, að flýja Indland af ótta við að vera handtekin. Udwin sagði í samtali við stöðina: „Ég óttast mjög hvað gerist næst, ég spái því að heimurinn muni benda fingri á Indland. Þetta er harmleikur, þú ert að skjóta sjálfan þig í fótinn,“ sagði hún um ákvörðun indverskra ráðamanna.
Myndin fjallar um örlög Jyoti Singh, sjúkraþjálfunarnemans sem var nauðgað og myrt í desember 2012, á einstaklega hrottafenginn hátt. Hún var 23 ára gömul.
Ritstjóri BBC4, Cassian Harrison, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að flýta sýningu myndarinnar vegna alþjóðlegs áhuga á henni. Hann segir synd að stjórnvöld á Indlandi hafi sett sig upp á móti því að hún verði sýnd þar í landi.
BBC hefur ekki borist erindi frá indverskum ráðamönnum, en þar á bæ segja menn ólíklegt að þau geti komið því í kring að myndin verði bönnuð í Bretlandi. Indversk stjórnvöld hafa sagt að þau vinni að því að koma í veg fyrir að myndin verði sýnd á alþjóðavísu.
Ráðherrann M Venkaiah Naidu hefur sagt að um sé að ræða alþjóðlegt samsæri til að koma óorði á Indland.
Udwin hefur hins vegar biðlað til indverska forsætisráðherrans, Narendra Modi, um að fá banninu hnekkt.
Í India's Daughter er m.a. að finna viðtal við einn þeirra sem hlaut dóm fyrir nauðgunina og morðið á Singh, en hann situr nú í fangelsi í Delhi. Viðtalið hefur vakið athygli um allan heim en í því segir Mukesh Singh meðal annars að stúlkan hefði ekki verið myrt ef hún hefði bara látið vera að berjast um þegar henni var nauðgað. Þá virðist hann álasa henni fyrir að hegða sér ekki eins og prúð stúlka.
Sjónvarpsstöðvar í Noregi, Svíþjóð, Danmörk, Sviss og Kanada hafa þegar ákveðið að sýna myndina.