Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa myrt að minnsta kosti sex samkynhneigða karlmenn með því að henda þeim fram af háum byggingum. Nýlegar myndir sem virðast hafa verið teknar í Raqqa í Sýrlandi sýna hvernig manni er fleygt fram af byggingu og grýttur í kjölfarið.
Þrír menn standa hjá fórnarlambinu, með svartar hettur yfir höfðum sínum. Fórnarlambinu er kastað fram af byggingunni og sést síðan liggja í jörðinni, umkringdur mönnum sem halda á vopnum og grjóti. Í myndatexta segir: Grýttur til dauða.
Á annarri mynd sést hópur fólks fylgjast með, aðallega karlmenn en einnig konur og börn.
Maðurinn á myndunum var myrtur vegna kynhneigðar sinnar.
„Það er manni ofviða að horfa á þetta, en þetta fólk stendur bara þarna á þessum myndum og horfir á og gerir ekki neitt, og svipbrigði þeirra eru virkilega ógnvekjandi því þau eru ekki einu sinni óttaslegin gagnvart því sem er í gangi,“ hefur CNN eftir Nour, sem er sýrlenskur hommi og aðgerðasinni.
Nour, sem vill ekki koma fram undir réttu nafni, er einn þeirra manna sem hefur flúið heimaland sitt vegna ofsókna. Hann hefur frá unga aldri mátt þola andlegt og líkamlegt ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar.
Samkvæmt sýrlenskum lögum eru „ónáttúrulegar samfarir“ ólöglegar og viðurlögin allt að þriggja ára fangelsi.
Nour flúði Sýrland áður en Ríki íslam vöktu alþjóðlega athygli með voðaverkum sínum, eftir að hafa séð myndband þar sem tveir hommar voru afhöfðaðir. Á myndbandinu heyrist rödd tala um að skaka hásæti guðs, en í einni af sögnunum um Múhameð spámann (hadith) segir að þegar „maður fer upp á annan mann, skelfur hásæti Guðs“.
Nour segir hinsegin fólk í Sýrlandi þurfa hjálp. Samtökin International Gay and Lesbian Human Rights Commission segir ljóst að Ríki íslam ætli sér að breiða út skelfingu meðal hóps sem þegar sæti ofsóknum.
Ítarlega frétt um málið er að finna á vefsvæði CNN.