Þjóðaratkvæðagreiðsla möguleg

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Hægt er að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi hafni lánardrottnar endanlegri beiðni Grikkja, sagði fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varofakis, í blaðaviðtali í morgun. Ný ríkisstjórn landsins, sem Alexis Tsipras leiðir, sigraði í sögulegum kosningum í janúar á þessu ári en flokkurinn lofaði því að endursemja um lán Grikklands sem veitt voru af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og evruríkjum. Ef samningar nást tekst nýju ríkisstjórninni að binda enda á niðurskurð í landinu en lánardrottnar hafa krafist mikils aga í ríkisfjármálum.

Grikkir náðu tímabundnum samningum í síðasta mánuði og hafa yfirvöld í Grikklandi því tíma til loka aprílmánaðar til að koma með tillögur að umbótum gegn því að fá frekari aðstoð. Á mánudag munu fjármálaráðherrar evrusvæðisins hittast í Brussel þar sem beiðni Grikkja verður rædd en ríkisstjórn Grikklands skilaði af sér formlegum drögum að umbótum í síðustu viku. Reuters greinir frá þessu á síðu sinni í dag.

Varoufakis sagði í samtali við ítalska blaðið Corriere della Sera að það gæti orðið vandamál yrði endanlegri beiðni ríkisstjórnarinnar hafnað. „En eins og forsætisráðherrann hefur sagt þá erum við ekki límd við stólana okkar. Við getum kosið að nýju, boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Varoufakis. Orð Varoufakis virðast hafa komið öðruvísi út í blaðinu en hann ætlaði og sendi fjármálaráðuneyti Grikklands frá sér tilkynningu í morgun þar sem sagði að Varoufakis hefði svarað spurningu sem reist hefði verið á tilgátu. Sagði þar að ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu myndi hún „augljóslega snúast um endurumbæturnar og fjármálastefnu landsins“ en ekki hvort landið ætti að tilheyra evrusvæðinu áfram, líkt og dagblaðið las í orð hans.

Þjóðaratkvæðagreiðsla „mjög slæm þróun“

Mikill meirihluti grísku þjóðarinnar vill halda áfram í evruna og tveir þriðju styðja ríkisstjórnina í viðræðunum um lánin. Þjóðaratkvæðagreiðsla um samning við lánardrottnana sem tryggir að landið verði áfram innan evrusvæðisins en uppfyllir ekki loforð Tsipras gæti verið þægileg lausn fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja slíkan samning þó svo að flokkurinn hafi komist til valda undir öðrum formerkjum. Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Antonis Samaras, er nú leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hann sagði að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði „mjög slæm þróun“ og myndi gera ríkisstjórninni kleift að fría sig allri ábyrgð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert