Tveir ákærðir fyrir morð á Nemtsov

Tveir menn hafa verið ákærðir vegna morðsins.
Tveir menn hafa verið ákærðir vegna morðsins. AFP

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov. Lítið er vitað um mennina tvo, þá Anzor Gubashev og Zaur Dadayev, en þeir eru sagðir af tsjetsjenskum uppruna í rússneskum fjölmiðlum. Tvímenningarnir eru sakaðir um bæði skipulagningu og framkvæmd morðsins. Þrír aðrir lágu undir grun vegna málsins og mættu þeir einnig fyrir rétt í morgun. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á síðu sinni.

Nemetsov var myrtur þegar hann var á göngu með kærustu sinni hinn 27. febrúar síðastliðinn og hefur morðið vakið mikla athygli um allan heim. Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur fordæmt morðið og kallaði hann eftir því að „svívirðilegum“ pólitískum morðum lyki í Rússlandi.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar Alexei Navalny sakaði yfirvöld í Rússlandi um að hafa skipulagt morðið til að kúga stjórnarandstöðuna en stjórnarandstaðan verður sífellt háværari eftir því sem efnahagsvandi Rússlands eykst. Morðið á Nemtsov var aðeins nokkrum dögum áður en mótmæli sem hann skipulagði fóru fram en mótmælin voru vegna stríðsins í Úkraínu. Þá hafði Nemtsov unnið að skýrslu sem átti að fletta ofan af þátttöku Rússlands í deilunni í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert