„Í þessu upptökuveri stjórna ég“

Skjáskot af Youtube

Líbanski þáttastjórnandinn Rima Karaki stöðvaði á dögunum viðtal við íslamskan fræðimann eftir að hann sagði henni að þegja. „Í þessu upptökuveri stjórna ég,“ sagði Karaki áður en viðtalið var rofið. 

Karaki hafði rætt við egypska sjeikinn Hani Al-Siba'i um kristna menn sem ganga í raðir hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam, og sagt honum að hann yrði að svara hnitmiðað svo þau kæmust yfir allar spurningarnar. Sjeikinn móðgaðist við þetta og sagði: „Ertu búin? Þegiðu svo ég geti talað.“

Karaki svaraði fyrir sig og spurði hann á móti hvernig virtur sjeik eins og hann sjálfur gæti sagt þáttastjórnanda að þegja. 

„Það er fyrir neðan mína virðingu að vera í viðtali hjá þér. Þú ert kona, sem...“ sagði Siba'i áður en slökkt var á hljóðnema hans. 

Karaki stöðvaði viðtalið þá og sagði: „Annað hvort ríkir gagnkvæm virðing eða samtalið er búið.“

Þátturinn var sýndur 2. mars sl. á sjónvarpsstöðinni Al-Jadeed TV. Myndbandið hefur nú farið um allt internetið, og hafa hátt í þrjár milljónir manna horft á það á Youtube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert