Dómsmálaráðherra Hollands segir af sér

Ivo Opstelten
Ivo Opstelten AFP

Dómsmálaráðherra Hollands,  Ivo Opstelten, sagði af sér í gærkvöldi í tengslum við hneykslismál tengdu þekktum eiturlyfjabarón.

Opstelten tilkynnti um afsögn sína í gærkvöldi í Haag en hann segist taka fulla ábyrgð á málinu. Í gær tilkynnti dómsmálaráðuneytið um að sönnunargögn hafi komið fram sem sýni að eiturlyfjasalinn Cees H hafi fengið greiddar 4,7 milljónir gyllina (2,4 milljónir evra). Um var að ræða samning sem Fred Teeven, ráðuneytisstjóri en þáverandi ríkissaksóknari, gerði við Cees H um að hann fengi endurgreitt fé sem hafði verið haldlagt vegna rannsóknar. Peningarnir voru lagðir inn á bankareikninga Cees H í Lúxemborg án þess að skattayfirvöld væru upplýst um málið. Teeven sagði einnig af sér í gærkvöldi.

Á síðasta ári hélt Opstelten því fram á þingi að engin gögn væru til um sem sýndu fram á samkomulagið við fíkniefnasalann. Var hann spurður út í samninginn á þingi í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um málið. Í gær sagði hann að ekki hafi tekist að hafa upp á bankakvittunum eða öðru slíku en að hann hafi fengið það staðfest rafrænt að millifærslan hafi átt sér stað.

Að sögn Opstelten eru upplýsingarnar ekki nýjar af nálinni og að hann hefði átt að fá þær fyrr í hendurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert