Þrír þekktir franskir íþróttamenn eru meðal tíu manns sem fórust í þyrluslysi í Argentínu í gær. Átta Frakkar létust í slysinu og tveir argentínskir flugmenn þegar þyrlur þeirra rákust saman í La Rioja-héraði. Verið var að taka upp raunveruleikaþáttinn Dropped þegar slysið varð, segir í frétt BBC.
Meðal þeirra er siglingakonan Florence Arthaud, 57 ára. Hún er þekkt um allan heim, fór með sigur af hólmi í Route du Rhum-siglingakeppninni árið 1990. Hún lenti í alvarlegu bílslysi þegar hún var sautján ára og var vart hugað líf á þeim tíma.
Sundkonan Camille Muffat 25 ára, en hún vann til þrennra verðlauna á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012, þar á meðal í 400 metra skriðsundi. Hún hætti keppni í fyrra.
Hnefaleikakappinn Alexis Vastine, 28 ára, lést einnig, en hann hlaut bronsið í léttþungavigt á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Hann tapaði naumlega í undanúrslitum á leikunum í Lundúnum árið 2012.
Forseti Frakklands, Francois Hollande, minntist þeirra sem fórust í slysinu í morgun í yfirlýsingu sem forsetaembættið sendi frá sér.
Slysið varð skammt frá Villa Castelli, í um 1.170 km fjarlægð frá Buenos Aires. Verið var að taka upp þáttinn Dropped en þátturinn er vinsæll raunveruleikaþáttur sem er sýndur á TF1. Í þáttunum er fylgst með þekktum einstaklingum takast á við erfiðar aðstæður. Samkvæmt tilkynningu frá franska sjónvarpinu var tökum hætt eftir slysið og allir þátttakendur sendir heim.