Fasteignaauglýsing í Indónesíu hefur vakið mikla athygli um allan heim enda ekki á hverjum degi sem eigandinn fylgir með ókeypis.
Fasteignaauglýsingin er birt á netinu um er að ræða tveggja herbergja hús með tveimur baðherbergjum, bílastæði og fiskatjörn. En einstakt tilboð fylgir með: „Þegar þú kaupir þetta hús geturðu beðið eigandann að giftast þér,“ segir í auglýsingunni og með fylgir mynd af Wina Lia, fertugri ekkju sem á og rekur snyrtistofu. Á myndinni hallar hún sér að bifreið fyrir framan húsið.
Húsið er í Sleman, á eyjunni Jövu, og eru settar 999 milljónir rúpía á það en það svarar til 10,4 milljóna króna.
Fréttir af fasteigninni og tilboðinu fóru eins og eldur í sinu um netheima Indónesíu en Indónesar eru mjög virkir á samfélagsmiðlum. Einn sem deildi fréttinni benti á að Lia væri greinilega mjög vel gefin því ef húsið seldist með þessum skilyrðum myndi hún eiga það áfram.
Lia segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að sér sé mjög brugðið vegna viðbragða við auglýsingunni. Hún hafi ekki undan að svara blaðamönnum og jafnvel lögreglan hafi bankað upp á hjá henni.
Að sögn Lia bað hún vin sinn sem er fasteignasali að aðstoða sig við að finna kaupanda og jafnvel eiginmann líka en bað um að hann myndi einungis láta fáa vita af tilboðinu.
„Ég bað vin minn, sem einnig starfar sem fasteignasali, um að ef það kæmi fram kaupandi sem væri ókvæntur eða ekkill og einnig að leita að eiginkonu, þá mætti hann láta mig vita þar sem ég er ekkja,“ segir Lia. Að hennar sögn hefur aðeins einn sem kemur til greina sem kaupandi haft samband.
NEWSVIDEO http://t.co/s3Q30CibUo Ini Dia, Wina Lia, Si Penjual Rumah yg Bisa Dinikahi https://t.co/5owgSX1yhL @tribunnews
— TRIBUNnews.com (@tribunnews) March 11, 2015