Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hefur dustað rykið af kröfu Grikkja um stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum vegna hernáms þýska hersins á Grikklandi í síðari heimsstyrjöldinni. Þýsk stjórnvöld hafi aldrei bætt Grikkjum þann samfélagslega skaða sem þeir hafi orðið fyrir. Krafan yrði sett aftur á dagskrá.
Þetta kom fram í ræðu sem Tsipras flutti í gríska þinginu í dag þar sem forsætisráðherrann skírskotaði meðal annars til nasismans, þriðja ríkisins og helfararinnar. Sagði hann að þó Þjóðverjar hafi greitt Grikkjum 115 milljónir þýskra marka árið 1960 hafi það aðeins farið til einstakra fórnarlamba en ekki bætt samfélagslegan „eyðileggingu“ Grikklands.
Sagði Tsipras að Þjóðverjar ættu Grikkjum bæði siðferðislega og efnislega skuld að gjalda. Sakaði hann þýsk stjórnvöld, sem hafa sagt að þau hafi þegar staðið við skuldbindingar sínar vegna styrjaldarinnar, um að nota tæknileg atriði til þess að komast hjá því að borga. Þau sæi flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga.
Krafa grískra stjórnvalda tengist deilu þeirra við Evrópusambandið og þýsk stjórnvöld um áframhaldandi neyðaraðstoð við Grikkland og skilyrði fyrir henni.