Óttast uppskerubrest með minni losun

Þingmaður Ukip óttast um afkomu bænda ef dregið verður úr …
Þingmaður Ukip óttast um afkomu bænda ef dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda. AFP

Evrópuþingmaður breska sjálfstæðisflokksins Ukip segir það brjálæði að ætla að draga úr losun koltvísýrings til að bregðast við loftslagsbreytingum því þá muni jurtir ekki hafa efnivið til að vaxa. Vísindamenn segja þó ekkert að óttast og líklega örli á misskilningi hjá þingmanninum.

„Veistu að ef ykkur tekst að draga úr koltvísýringi í Evrópu þá munu plönturnar okkar ekki hafa neitt náttúrulegt gas til að vaxa með. Við verðum að hafa koltvísýring. Þetta er brjálæði, algert brjálæði sem þið eruð að stinga upp á. Landbúnaðurinn okkar á eftir að líða illilega fyrir það ef við reynum að grafa kolefni í jörðu. Þetta er alveg brjálað,“ sagði Stuart Agnew, þingmaður flokksins á Evrópuþinginu í vikunni.

Ukip hefur verið á móti fyrirhuguðum aðgerðum Evrópusambandsins í loftslagsmálum en í síðustu viku skuldbundu ríkin sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990.

Plöntur döfnuðu ágætlega fyrir árið 1990

Þvert á ótta þingmanns Ukip hefur því verið spáð að uppskera muni spillast ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram. Sú hlýnun sem verður muni leiða til aukinna flóða, þurrka og öfgakennds veðurfars.

Richard Betts, yfirmaður loftslagsrannsókna hjá bresku veðurstofunni, segir að enginn hafi lagt það til að dregið verði úr styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu svo mikið að hann verði minni en fyrir 20. öldina. Almetnaðarfyllstu áætlanir miði við að minnka hann niður í það sem var um 1990. Hann segist jafnframt efast um að það hefði mikla þýðingu fyrir vöxt plantna þar sem þær virtust hafa dafnað ágætlega fyrir árið 1990.

„Ég velti því fyrir mér hvort að slíkar spurningar eigi rót sína í misskilningi um styrk og losun. Áætlanir um að draga úr losun um til dæmis 80% myndu ekki minnka styrk [koltvísýrings] um sama hlutfall,“ segir Betts.

Frétt The Guardian af áhyggjum þingmanns Ukip

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert