Ríkisstjórnin vill fleiri hraðstefnumót

Ríkisstjórn Japans vill auka fólksfjölgun með hjálp hraðstefnumóta.
Ríkisstjórn Japans vill auka fólksfjölgun með hjálp hraðstefnumóta.

Sveitarstjórnir í Japan munu fá fjárstuðning frá ríkisstjórninni ef þær skipuleggja hraðstefnumót fyrir íbúa sína, samkvæmt drögum að nýrri stefnu þar í landi sem ætlað er að auka fólksfjölgun. Búist er við að japanska ríkisstjórnin muni samþykkja drögin í lok marsmánaðar, að því er segir í umfjöllun The Japan Times.

Sömuleiðis er varað við því að alvarlegt ástand geti skapast í landinu á næstu árum vegna þess að þar fæðast ekki nógu mörg börn, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir samfélagið jafnt sem efnahaginn.

Ríkisstjórnin vill þó gera fleira en að stuðla að fleiri stefnumótum. Þannig felur stefnan í sér aukinn aðgang að ókeypis dagheimilum og opnun ráðgjafarstofa víða um land til að aðstoða fólk í frjósemismeðferðum. Þá er stefnt á að auka hlutfall feðra, sem taka sér orlof um leið og barn þeirra fæðist, í áttatíu prósent.

Margir þættir eru taldir orsaka minnkandi fólksfjölgun í Japan. Hefur meðal annars verið bent á aukinn kostnað við að ala upp börn, fleiri konur séu á vinnumarkaði nú en áður og að fjöldi einhleypra einstaklinga sé sífellt að aukast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert