Vinsældir Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, fara vaxandi en áttatíu og sex prósent Rússa segjast vera ánægð með störf hans sem forseta. Fylgið er sautján prósentustigum hærra nú en í febrúar í fyrra og hefur ekki mælst jafnhátt í fimmtán ár.
Aðeins sjö prósent Rússa segjast vera óánægð með forsetann, að því er fram kemur í niðurstöðum könnunar VTSIOM frá því fyrr í mánuðinum.
Orðrómur hefur verið á kreiki undanfarna daga þess efnis að Pútín væri veikur þar sem hann hafði, þar til í dag, ekki sést í eina tíu daga á skjánum. Rússneskir sjónvarpsáhorfendur hafa jafnan séð forseta sinn hvern einasta dag í fréttunum.
Rússneska ríkissjónvarpið sýndi hins vegar í dag myndskeið sem kynnt var sem myndir af Pútín að störfum í embættisbústað sínum við Moskvu.