Hópur breskra þingmanna vill að tilteknar lýtaaðgerðir sem sagðar eru búa til „hönnuð sköp“ verði bannaðar á grundvelli laga sem leggja bann við limlestingum á kynfærum kvenna. Aðgerðirnar eigi sér enga læknisfræðilega ástæðu. Hópurinn telur lögin ekki nógu skýr hvað varðar aðgerðir af þessu tagi.
Innanríkisnefnd breska þingsins segir að lög sem banna limlestingar á kynfærum kvenna sem samþykkt voru árið 2003 séu ekki nógu skorinorð. Þau þurfi að ná yfir aðgerðir sem lýtalæknar á Bretlandi hafi gert á sköpum kvenna.
„Við getum ekki sagt samfélögum í Síerra Leóne og Sómalía að hætta tiltekinni iðju sem er svo leyfileg niðri á Harley-stræti [gata í London sem þekkt er fyrir fjölda lækna- og skurðstofa],“ segir Keith Vaz, formaður nefndarinnar.
Ríkisstjórnin hefur sagt að aðgerðir lýtalækna séu ekki undanþegnar lögunum og hún hafi ekki í hyggju að breyta þeim. í skýrslu þingnefndarinnar kemur hins vegar fram að lögreglan, ljósmæður og mannréttindafrömuðir vilji að lögin verði skýrð hvað þetta varðar.
Frétt The Guardian af áhyggjum af limlestingum á kynfærum kvenna á Bretlandi