Vladimír Pútín Rússlandsforseti segist hafa verið tilbúinn að brúka kjarnorkuvopn Rússlands hefði komið til afskipta Bandaríkjanna og þeirra bandamanna þegar Rússland innlimaði Krímskaga í Rússland á síðasta ári.
„Við vorum tilbúin að gera það,“ sagði Pútín í heimildamynd um innlimun Krímskaga. Myndin kallast „Crimea: the Road to the Motherland“ og var hún sýnd á ríkissjónvarpinu, Rossiya-1 í dag en Bloomberg-fréttastofan greindi frá þessu.
Sagðist Pútín hafa varað Bandaríkin og Evrópulönd við því að blanda sér í málið og sakaði hann Vesturlöndin um að hafa skipulagt mótmælin í Úkraínu en þau urðu til þess að fyrrverandi forseta Úkraínu og bandamanns Rússlands, Viktor Yanukovych, var steypt af stóli. Þá sagði hann í heimildamyndinni að hann hefði sent rússneskar hersveitir yfir til Úkraínu til að afvopna 20 þúsund úkraínska hermenn. Ekki er vitað hvenær viðtalið við Pútín var tekið upp en myndin var gerð á átta mánaða tímabili.
Afskipti Rússlands af Krímskaga í mars á síðasta ári ollu mestum pólitískum deilum á milli Rússlands og Vesturlanda frá tímum kalda stríðsins. Spennan á milli Rússlands og Vesturlanda, með Bandaríkin í broddi fylkingar, hefur aukist með hverjum deginum síðan en yfir 6 þúsund manns hafa látið lífið undanfarið ár vegna uppreisnar aðskilnaðarsinna.