Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, lýsti yfir „miklum sigri“ í kvöld vegna þingkosninganna sem fram fóru í landinu eftir að útgönguspár bentu til þess að hægriflokkur hans Likudbandalagið fengi jafnmörg þingsæti og helsti keppinauturinn vinstriflokkurinn Zíónistabandalagið.
„Andstætt öllum líkum, mikill sigur fyrir Likudbandalagið. Mikill sigur fyrir ísraelsku þjóðina,“ skrifaði Netanyahu á Twitter-síðu sína. Fram kemur í frétt AFP að útgönguspár bendi annars vegar til þess að flokkarnir fái 27 þingsæti hvor og hins vegar að Likudbandalagið fái 28 þingmenn og þar með einum fleiri en Zíónistabandalagið. Samtals sitja 120 þingmenn á ísraelska þinginu.