Tíminn að renna út fyrir aðgerðir

Martin Schulz yfirgefur blaðamannafundinn í Peking í morgun.
Martin Schulz yfirgefur blaðamannafundinn í Peking í morgun. mbl.is/afp

Tíminn er að hlaupa frá heimsbyggðinni til að ná samkomulagi um aðgerðir vegna loftslagsbreytinga, sagði forseti þings Evrópusambandsins (ESB), Martin Schulz, í Peking í morgun, en þar er hann á ferðalagi.

„Við verðum að átta okkur á því að klukkan er fimm mínútur til miðnættis og að markmiðin sem við höfum skilgreint eru ekki evrópsk, amerísk eða kínversk,“ bætti Schulz við, en fyrri hluta desember verður þess freistað að ná lokasamkomulagi um aðgerðir gegn hlýnun andrúmsloftsins á nýrri loftslagsráðstefnu í París.

„Ráðamenn verða að átta sig á því að baráttan gegn loftslagsbreytingum snýst um hvort mannkynið lifir af. Misheppnist okkur í dag munu kynslóðir framtíðarinnar gjalda fyrir það dýru  verði. Við erum ábyrg fyrir framtíð mannkynsins,“ sagði Schulz. 

Hann fundaði í gær með Xi Jinping  Kínaforseta í gær og sagðist eftir það hafa í fyrsta sinn á tilfinningunni að Kínverjar skilji að alvara málsins „hafi stóraukist“.

„Við erum algjörlega sammála um að loftslagsráðstefnan í París ráði úrslitum ekki bara fyrir Kína heldur og ESB. Yfirvöld í Kína og Evrópusambandinu eru ákveðin í því að ná fram víðtæku, bindandi samkomulagi um aðgerðir vegna loftslagsbreytinga í París,“ sagði Schulz á blaðamannafundinum.

Ráðherrafundur loftslagsráðstefnunnar í Lima í Perú í desember í fyrra varð sammála um 37 síðna drög að samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum. Náist lokasamkomulag í París verður það að koma til framkvæmda í síðasta lagi árið 2020 eigi að ná því marki að binda hlýnun andrúmsloftsins við að hún verði ekki meiri en tveimur gráðum á Celsius yfir meðalhita andrúmsloftsins fyrir iðnbyltinguna.

Vísindamenn hafa varað við því að núverandi losun gróðurhúsalofts sé á góðri leið með að valda tvöfaldri þeirri hlýnun sem átt hefur sér stað frá iðnbyltingunni. Slík hlýnun sé ávísun á hamfaraþurrka, stormviðri, flóð og hækkun sjávarmáls.

Í byrjun marsmánaðar náði ESB saman um markmið til að stemma stigu við hlýnun. Þar á meðal að fram til ársins 2030 minnki losun gróðurhúsalofts um 40% frá því sem losunin var árið 1990. 

Bandaríkin, sem vera ábyrgð á 12% allrar losunar gróðurhúsalofts, hafa sett sér sem markmið að minnka losunina um 26-28% fram til ársins 2025, miðað við losunina 2005. 

Fjórðungur allrar losunar gróðurhúsalofts á sér aftur á móti stað í Kína, öðru stærsta hagkerfi heims. Eina markmiðið sem kínversk stjórnvöld hafa sett sér til þessa er að losunin nái hámarki árið 2030. Hafa Kínverjar ekki skuldbunið sig eða lýst reiðubúna til að minnka losunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert