Forsætisráðherra lýðveldisins Kongó segir að ríkisstjórn hans vilji opna á möguleikann á olíuleit í Virunga-þjóðgarðinum. Garðurinn er á heimsminjaskrá UNESCO og segist ráðherrann ætla að hefja viðræður við Sameinuðu þjóðirnar um „skynsamlega“ olíuleit í þjóðgarðinum.
Virunga er elsti og líffræðilega fjölbreyttasti þjóðgarður Afríku. Hann hefur verið á lista SÞ yfir staði á heimsminjaskrá UNESCO sem eru í hættu frá árinu 1994 vegna vopnaðra átaka og veiðiþjófnaðar sem hafa ógnað vistkerfi hans undanfarna tvo áratugi.
Árið 2007 veitti ríkisstjórn Kongó tvö olíuleitarleyfi við mörk þjóðgarðsins til franska olíufyrirtækisins Total og Soco International, félags sem skráð er á Bretlandi. Total samþykkti að leita aldrei að olíu innan marka þjóðgarðsins en Soco hefur gert frumrannsóknir í garðinum. Það er á grundvelli þeirra rannsókna sem stjórnvöld munu ákveða hvort leitað verður meira í garðinum.
Virunga er frægur fyrir fjallagórillur en þar býr einnig fjöldi tegunda í útrýmingarhættu, aðallega í kringum Edward-vatn þar sem Soco hefur leitað hófanna. Samkvæmt reglum um heimsminjaskrá UNESCO útilokar olíuleit og vinnsla staði frá skránni. Til þess að geta borað eftir olíu þurfa stjórnvöld í Kongó að endurskilgreina hluta garðsins eða að taka hann af heimsminjaskránni alfarið.
Frétt The Guardian af áhuga á olíuleit í Virunga-þjóðgarðinum