Stórhættulegur áróður á Twitter

Skjáskot af Twitter

Voðaverk Ríkis íslams hafa vakið heimsathygli síðustu mánuði. Myndbönd þar sem böðlar samtakanna sjást hálshöggva gísla hafa vakið óhug sem og árásir samtakanna á borgir og þorp í Sýrlandi og Írak. Fjölmargar þjóðir hafa tekið þátt í baráttunni gegn samtökunum, þar á meðal Bandaríkin, Frakkland og Sádi Arabía.

Það sem vekur þó einnig athygli er herferð samtakanna á samfélagsmiðlum. Að mati blaðamanns The Independent, Heather Saul, er sú herferð mögulega sú hættulegasta þegar það kemur að áróðri, en fjölmargir ungir Evrópubúar, hafa haldið til Sýrlands til þess að berjast með samtökunum. 

Í síðasta mánuði héldu til að mynda þrjár breskar unglingsstúlkur til Sýrlands til þess að berjast með Ríki íslams. Stúlkurnar eru 15 og 16 ára gamlar og talið er líklegt að þær ætli sér að verða brúðir skæruliða samtakanna. 

Athygli hefur vakið hversu áberandi liðsmenn- og konur Ríkis íslams eru á samfélagsmiðlum eins og Twitter. Talið er að þau orð og myndir sem hafa birst þar beri mikla ábyrgð á straumi Vesturlandabúa til Sýrlands. 

Í þessari viku birti ein þeirra kvenna sem ferðaðist frá Vesturlöndum til Sýrlands til þess að giftast hermanni Ríkis íslams mynd á samfélagsmiðlum þar sem má sjá hana ásamt vinkonum sínum umkringja BMW glæsibifreið. 

Miðað við textann sem fylgir myndinni má gera ráð fyrir því að konurnar séu frá Bandaríkjunum og Ástralíu. 

Fjölmargar myndir, þar sem reynt er að fegra líf kvennanna í Sýrlandi, má finna á Twitter. Má sjá konurnar versla, leika með börnum sínum og elda mat. Aldrei eru byssurnar þó langt undan.

Að mati Saul er reynt að sýna eðlilegt fjölskyldulíf innan Ríkis íslams.  „Sýna myndirnar ung börn leika sér saman í sólinni, þegar þau eru ekki mynduð í æfingabúðum haldandi á Kalashinkov rifflum sem eru næstum jafn stórir og þau,“ skrifar blaðamaðurinn. 

Vitnað er í Charlie Winter, fræðimann í Quilliam samtökunum, sem segir að áróður þar sem reynt er að sýna eðlilegt líf vígamanna spili mikilvægt hlutverk við það að breyta ímynd Ríkis íslams úr samtökum yfir í lífsstíl.

„Þessháttar áróður fær ekki mikla athygli í fjölmiðlum Vesturheims því innihaldið er ekki mjög umdeilt. Það er þó mikilvægt þegar það kemur að heildarskilaboðum samtakanna,“ sagði Winter.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert