Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur lagt til að tekinn verði upp sameiginlegur gjaldmiðill í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan. Hann bar upp tillöguna á fundi forseta landanna þriggja fyrr í dag og varpar hún ljósi á þá krísu sem Evrasíska efnahagssambandið stendur nú frammi fyrir, eftir hrun olíuverðs og rússnesku rúblunnar.
„Það er kominn tími til að íhuga að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil,“ sagði Pútín eftir fundinn í Astana, höfuðborg Kasakstan. Hann fundaði með þeim Alexander Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, og Nursultan Nazarbayev, forseta Kasakstan.
Pútín gaf ekki upp frekari upplýsingar um tillöguna en sagði það betra að glíma við efnahagsleg vandamál í sameiningu. Þeir Lukashenko og Nazarbayev tjáðu sig ekki um tillögu Pútíns opinberlega.
Grigory Marchenko, fyrrverandi seðlabankastjóri Kasakstan, hefur sagt að það muni taka 10 til 12 ár áður en sameiginlegur gjaldmiðill geti orðið að veruleika á Evrasíska efnahagssvæðinu en Kasakstan hefur lagt það til að löndin taki upp sameiginlega peningastefnu áður en lengra verður haldið varðandi sameiginlegan gjaldmiðil.
Rússneska rúblan hefur hrunið um 40 prósent gagnvart bandaríkjadollar frá því um mitt síðasta ár með afleiðingum fyrir viðskiptalönd Rússlands á borð við Hvíta-Rússland og Kasakstan.