Breytt landslag í frönskum stjórnmálum

Fastlega er gert ráð fyrir því að þjóðernisflokkurinn Front National eigi eftir að fara með sigur af hólmi í mörgum sýslum Frakklands á morgun.

Ef rétt reynist telja margir stjórnmálaskýrendur þetta vera fyrsta skrefið í að flokkurinn verði stærsti stjórnmálaflokkur Frakklands og að formaður hans, Marine Le Pen, verði næsti forseti Frakklands.

Kosningaspár benda til þess að Front National fái um 40% atkvæða í fyrri umferðinni á morgun. 

Á BBC vefnum er rætt við frambjóðanda FN í Fere-en-Tardenois, Mireille Chevet, sem segir að helsta kosningamálið þar séu málefni innflytjenda. „Við verjum réttinda indíána í Amazon og frumbyggja í Lappalandi og menningu þeirra. En Frakka, nei! og þegar við stöndum upp og verjum okkur þá erum við kölluð fasistar,“ segir hún.

Á sama tíma og stöðnun ríkir í efnahagsmálum landsins og atvinnuleysi mælist um og yfir 10-14% hefur fylgismönnum Front National fjölgað jafnt og þétt. 

Í fréttaskýringu sem Ágúst Ásgeirsson ritaði í Morgunblaðið fyrr í mánuðinum kom fram að á milli þing- og forsetakosninga hafa kjósendur jafnan notað aðrar kosningar til að láta álit sitt á stjórnvöldum í ljós, aðallega ef um óánægju er að ræða.

Franska þjóðfylkingin (FN) hefur að undanförnu mælst stærstur flokka í fylgismælingum en skemmst er að minnast að hann hlaut mest fylgi í kosningum til Evrópuþingsins í maí í fyrra, eða 24,85%.

Annars benda ítrekaðar skoðanamælingar til að áhugi fyrir sýslustjórnarkosningunum sé lítill og að hinn þögli meirihluti kjósenda muni ekki hafa fyrir því að koma sér á kjörstað. Segjast 57% þeirra ekki ætla að greiða atkvæði í fyrri umferðinni og einungis 43% voru ákveðin í að nýta atkvæðisrétt sinn. 

„Áberandi er hversu dregið hefur úr kjörsókn í Frakklandi það sem af er öldinni og segja stjórnmálaskýrendur það benda til kosningaþreytu. Vegna marglaga stjórnsýslufyrirkomulags ganga Frakkar oftar að kjörborði en flestar aðrar þjóðir. Þannig fóru tvennar kosningar fram í fyrra, til sveitarstjórna og Evrópuþingsins, en í hvorum tveggja var tvöföld umferð. Hið sama var að segja um þing- og forsetakosningarnar 2012, sem fram fóru á samtals fjórum helgum. Og auk sýslustjórnarkosninganna nú í apríl fara kosningar til héraðsstjórnanna 13 fram í desember nk., einnig í tveimur umferðum. Verða það þó síðustu kosningarnar fram að þing- og forsetakosningunum vorið 2017,“ segir í fréttaskýringu Ágústs Ásgeirssonar.

Sýslurnar sem kosningarnar snúast öðrum þræði um eru eitt fjögurra laga flókinnar stjórnsýslu í Frakklandi. Efst er þing og ríkisstjórn, þá héröðin 13, síðan sýslurnar 96 á franska meginlandinu og fimm á gömlum áhrifasvæðum Frakka í Indlands- og Karíbahafi, og neðst þessa fjögurra laga eru svo sveitarstjórnirnar. Sýslurnar hafa svo verið bútaðar niður í 342 sérstök sýsluhverfi (20 slík eru til dæmis í París) sem enn frekar hefur verið skipt upp í kantónur. Sýsluhverfin og kantónurnar hafa engin völd lengur en koma að skipulagi opinberrar þjónustu og framkvæmd kosninga.

Sýslunum stjórna sýsluráð sem kosið er til nú. Hafa þau á forræði sínu ýmis verkefni er lúta að velferðarkerfinu, svo sem úthlutun margs konar bóta. Ennfremur reka sýslurnar byggingar unglingaskólanna, hafa með vegagerð og viðhald vega að gera innan umdæma sinna, rekstur skólarúta og dreifbýlisstrætós og koma að fjármögnun annarra innviða í bæjum og borgum. Ýmis þjónusta franska ríkisins er einnig skipulögð á vettvangi sýslnanna undir stjórn sýslumanns sem fulltrúa stjórnvalda í París. Það sem af er öldinni hafa áhrif næsta stjórnsýslulags fyrir ofan, héraðanna, verið aukin á kostnað sýslnanna.

Sýslurnar frönsku urðu til árið 1791 og leystu af hólmi héruð gamla stjórnarfarsins. Var þeim ætlað að stuðla að aukinni einingu þjóðarinnar. Ólíkt héruðunum 13 eru þær næstum allar kenndar við ár, fjöll eða strendur fremur en við gömul menningar- eða söguleg svæði. Vitnað er til sumra þeirra í daglegu tali með tveggja stafa póstsvæðistölu þeirra sem þar til fyrir nokkrum misserum voru á númeraplötum bíla, eða þar til fastnúmer voru tekin upp.

Í fyrra lagði François Hollande forseti til í þágu einföldunar stjórnsýslunnar að sýsluráðin yrðu lögð niður árið 2020. Áfram yrðu sýslurnar þó við lýði sem skipulagseiningar en völd þeirra færð á önnur svið stjórnsýslunnar. Spurning er hvort niðurstöður kosninganna 22. og 29. apríl næstkomandi ýti undir að það verði að veruleika. Helst beinist þó athygli stjórnmálaskýrenda að því hvernig Sósíalistaflokknum muni vegna í kosningunum. Mikil sundrung hefur einkennt flokkinn í vetur innan þings sem utan. Gjaldi hann afhroð yrði það síst til að bæta ástandið – og þykir jafnvel geta markað upphaf að harkalegu uppgjöri fyrir þing- og forsetakosningarnar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert