Lundúnabúinn Nazim Mahmood framdi sjálfsvíg fyrir sjö mánuðum eftir að hafa sagt fjölskyldu sinni frá því að hann væri samkynhneigður. Sambýlismaður hans til þrettán ára, Matthew Ogston, ræddi við blaðamann Guardian um þá erfiðleika sem þeir gengu í gegnum vegna ástar sinnar og kynhneigðar.
Síðastliðið vor fluttu þeir Matthew Ogston og Nazim Mahmood í draumaíbúðina sem þeir keyptu í norðvesturhluta Lundúna. Nazim var læknir sem rak eigin læknastofur og Matthew er vefhönnuður.
Með viðtalinu á Guardian fylgir mynd af þeim sem er tekin hér á landi 2008.
My Guardian feature on Nazim Mahmood, the doctor who killed himself because his family could not accept he was gay. http://t.co/JvtdXUZz6f
— Sarfraz Manzoor (@sarfrazmanzoor) March 21, 2015
Líf Nazim var á margan hátt frábrugðið því lífi sem hann ólst upp við en fjölskylda hans er heittrúaðir múslímar búsettir í Birmingham. Þegar þeir stóðu á svölunum í nýju íbúðinni alsælir leit Matthew á sambýlismann sinn og sagði: Ég held að okkur hafi loksins tekist það.“
Þeir brostu báðir en aðeins fjórum mánuðum síðar framdi Nazim sjálfsvíg með því að henda sér fram af svölunum. Hann var 34 ára er hann lést. Þegar þeir kynntust var hann 21 árs en það var á næturklúbbi fyrir samkynhneigða í Birmingham í nóvember 2001.
Þeir urðu fljótlega óaðskiljanlegir en á þessum tíma starfaði Matthew sem vefhönnuður OG Nazim nam læknisfræði. Fjölskyldur þeirra vissu ekki um samband þeirra og þrátt fyrir að búa saman léku þeir alltaf leikrit þar sem þeir þóttust einungis búa saman og að þeir svæfu í sitthvoru herberginu.
Urðu að „afhomma“ íbúðina
Þetta varð brátt mjög þreytandi og tók mjög á þá þannig að þegar Nazim var boðið starf á sjúkrahúsi í Lundúnum árið 2004 ákváðu þeir að slá til. Flytja á brott frá fjölskyldum sínum og fordómum til borgar þar sem þeir væru frjálsir. Þar eignuðust þeir vini sem var nákvæmlega sama um kynhneigð þeirra.
En lífið var ekki auðvelt fyrir þá því Nazim lifði tvöföldu lífi. Fjölskylda hans hafði varla hitt Matthew og hélt að hann hefði einungis aðstoðað Nazim við að kaupa íbúðina. Þegar þau komu til Lundúna varð Matthew að gista á gistiheimilum og þeir „afhommuðu“ íbúðina áður en von var á fjölskyldunni, segir Matthew. „Það þýddi að við þurftum að setja myndir af Kylie í kommóðuskúffuna sem og af Cher - og allar myndir og minningar sem gáfu samband okkar til kynna urðu að hverfa.“
Eftir rúmlega tíu ára samband greindi Matthew foreldrum sínum frá sambandinu við Nazim og tóku þau fregnunum vel. Ekkert slíkt var hins vegar í boði fyrir Nazim. Það var hins vegar á laugardegi í lok júlí í fyrra sem þeir Nazim og Matthew keyrðu saman til Birmingham.
Að sögn Matthew var þetta erfiður tími. Náinn vinur þeirra var nýlátinn og þeir þurftu að vera komnir til Lundúna á mánudegi til þess að vera við minningarathöfn um hann. Þessa sömu helgi fögnuðu múslímar Eid og ætlaði Nazim að eyða hátíðinni með fjölskyldu sinni í Birmingham.
Þegar þeir komu til Birmingham var fjölskylda Nazim ósátt við hversu seint hann kom og að hann ætlaði að fara svo fljótt aftur til Lundúna. Orð fuku og Matthew veit ekki nákvæmlega hvað gerðist annað en að Nazim var gjörsamlega miður sinn og sagði grátandi: „Hvers vegna getur fólk ekki tekið mér eins og ég er?“
Vildi að hann færi til geðlæknis og yrði læknaður
„Er það vegna þess að þú ert hrifinn af karlmönnum?“ spurði móðir hans út í bláinn. Nazim, sem hafði árum saman falið samband sitt og Matthew fyrir fjölskyldunni gerði eitthvað sem hann hafði aldrei ætlað sér: Hann sagði þeim allt.
Nazim var í áfalli þegar hann ók aftur til Lundúna. Það kom í ljós við réttarrannsóknina í desember að hann hafði sagt móður sinni að hann væri hommi og hefði verið í föstu sambandi í þrettán ár og ætlaði að kvænast Matthew. Viðbrögð móður hans voru þau að hann ætti að leita sér hjálpar hjá geðlækni og reyna að láta lækna sig.
Dánardómstjórinn, Mary Hassell, úrskurðaði að Nazim hefði framið sjálfsvíg. Ástæðan væri viðbrögð fjölskyldunnar varðandi kynhneigð hans.
Sögðu honum rangt um tímasetningu jarðarfarar
Sambýlismennirnir fóru saman í minningarathöfnina um látinn vin og daginn eftir í útförina. Að sögn Matthew var Nazim mjög fjarrænn en reyndi að fela það. Á þriðjudagskvöldinu aðstoðaði Nazim Matthew við pappírsvinnu og síðan fóru þeir að sofa.
Daginn eftir, þegar Matthew var í vinnunni, fékk hann skilaboð frá systur sinni um að hringja strax. Þetta var um miðjan dag, miðvikudaginn 30. júlí 2014. Hann hringdi í systur sína sem skipaði honum að fara strax heim án þess að segja hvers vegna. Matthew gat ekki ímyndað sér að neitt amaði að sambýlismanni sínum enda höfðu þeir talað saman í hádeginu. Nazim hafði hringt þrisvar eftir það en Matthew, sem var á fyrsta degi í nýrri vinnu, hafði ekki mátt vera að því að svara. Þegar hann kom heim fékk hann svarið. Nazim var látinn.
Fjölskylda Nazim bað Matthew um að láta lítið fyrir sér fara við útförina og samþykkti hann það en útförin átti að fara fram í Handsworth-kirkjugarðinum klukkan 15.30. Hann ákvað að vera tímalegan en þegar enginn annar lét sjá sig varð hann áhyggjufullur. Þegar hann spurði starfsmann kirkjugarðsins hvort hann gæti séð staðinn þar sem hann yrði jarðsettur kom í ljós að fjölskyldan hafði þegar látið grafa hann. Þau höfðu einfaldlega gefið honum upp rangan tíma á útförinni.